00:00

Skráning á Kids’ Atletics daginn á netskraning.is

VIKAN: NM inni – Íslandsmet og skólamet

Penni

3

min lestur

Deila

VIKAN: NM inni – Íslandsmet og skólamet

Irma bætti eigið Íslandsmet og Íslendingar með flottan árangur á NM. Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir bætti skólamet í Bandaríkjunum. Skarphéðinsmenn stigameistarar MÍ 11-14 ára og tvær vikur í Norðurlandameistaramót innanhúss í eldri aldursflokkum á Íslandi.

Irma með met og brons

Irma Gunnarsdóttir (FH) er búin að eiga frábæra viku. Hún bætti á fimmtudag eigið Íslandsmet í þrístökki kvenna á Nike mótaöðinni í Kaplakrika. Metið kom í síðustu tilraun og mældist það 13,36 metrar en fyrra metið hennar var 13,13 metrar sem hún setti í desember á síðasta ári. Íslandsmetið utanhúss er 13,18 metrar og er í eigu Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur.

Irma náði síðan í gær glæsilegu þriðja sæti í langstökki kvenna á Norðurlandameistaramótinu innanhúss í Karlstad í Svíþjóð. Irma stökk lengst 6,34 metra sem er aðeins tveimur sentímetrum frá hennar besta árangri.

Hafdís Sigurðardóttir (UFA) er einnig að koma sterk til baka í langstökkinu og náði sjötta sæti með stökki upp á 6,19 metra sem er hennar ársbesti árangur.

Ólympíufarinn og Íslandsmethafi í kringlukasti Guðni Valur Guðnason (ÍR) varð fjórði í kúluvarpi karla og náði sínum besta árangri á árinu með kast upp á 18,15 metra. Sindri Lárusson varð sjöundi með kast upp á 16,48 og var ekki langt frá sínu ársbesta en hann er búinn að kasta 16,52 metra lengst í ár.

Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) varð í fjórða sæti í 60 metra hlaupi karla og kom í mark á tímanum 6,75 sek. en hans besti árangur og Íslandsmetið í greininni er 6,68 sek. sem hann setti í janúar.

Hægt er að lesa meira um árangur íslenska liðsins á Norðurlandameistaramótinu hér.

Glæsilegur árangur í Bandaríkjunum

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) sigraði í lóðkasti á nýju skólameti Virginia Commonwealth háskólans á Darius Dixon Memorial Invitational í Lynchburg, Virginia. Hún kastaði lengst 19,39 metra sem er persónulegt met en hún átti áður 18,86 metra sem hún kastaði fyrir viku síðan. Þetta er einnig lengsta kastið í lóðkasti í ár í Atlantic 10 Conference á þessu tímabili.

Baldvin Þór Magnússon (UFA) hljóp frábært 3000 metra hlaup á David Hemery Valentine Invitational í Boston, Massachusetts á laugardag. Hann kom í mark á tímanum 7:50,29 sem er þriðji besti tíminn hans í greininni. Baldvin á best 7:47,51 sem hann hljóp á sama móti fyrir ári síðan og náði þá lágmarki á HM innanhúss þar sem hann komst í úrslit.

MÍ 11-14 ára

Um helgina fór fram Meistaramót Íslands 11-14 ára innanhúss í Laugardalshöll. Það voru um 300 keppendur skráðir til leiks frá 16 félögum víðs vegar að af landinu. Níu mótsmet voru sett mótinu og um 800 persónuleg met voru bætt. Það voru Skarphéðinsmenn sem urðu Íslandsmeistarar félagsliða eftir skemmtilega baráttu við Breiðablik.

Heildarúrslit mótsins má finna hér.

Ljósmyndir frá mótinu má finna hér.

Norðurlandameistaramót innanhúss í eldri aldursflokkum á Íslandi

Norðurlandameistarmótið innanhúss í eldri aldursflokkum og Iceland Masters Open fer fram dagana 24.-26. febrúar í Laugardalshöll og er skráning í fullum gangi. Mótið er bæði Norðurlandameistaramót sem og opið mót fyrir aðrar þjóðir. Frjálsar er frábær og fjölbreytt íþrótt fyrir 35 ára og eldri og geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Stór hópur öflugs fólks æfir og keppir innanlands og utan.

Keppnisgreinarnar sem eru í boði á mótinu eru eftirfarandi:

60m, 200m, 800m, 3000m, 3000m ganga, 4 x 200m boðhlaup, hástökk, langstökk, þrístökk, stangarstökk, kúluvarp, lóðkast.

Heimasíða mótsins má finna hér.

Mörg félög bjóða upp á æfingar fyrir eldri iðkendur. Hægt er að finna æfingatíma hér.

Mótin framundan

DagsetningMótStaðurAldur
18-19. febrúar Meistaramót ÍslandsLaugardalshöllFullorðnir
24-26. febrúarNM í eldri aldursflokkumLaugardalshöll35 ára og eldri
2-5. marsEvrópumeistaramótIstanbul, TyrklandFullorðnir
9. marsNike mótaröðinKaplakrikiFullorðnir
11-12. marsEvrópubikar í köstumLeiria, PortúgalU20, U23, Fullorðnir

Penni

3

min lestur

Deila

VIKAN: NM inni – Íslandsmet og skólamet

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit