Magnús Jakobsson var á föstudag kjörinn heiðursfélagi ÍSÍ en viðurkenningin var veitt á 76. Íþróttaþingi sambandsins og var Magnús heiðraður ásamt sex öðrum.
Magnús keppti í frjálsíþróttum fyrir uppeldisfélög sín, Ungmennafélag Reykdæla og UMSB og síðar UMSK með ágætum árangri. Þó Magnús hafi náð góðum árangri á keppnisvellinum þá er það utan hans sem stærstu afrekin hafa unnist. Fyrstu skrefin í félagsmálum steig Magnús í íþróttanefnd Ungmennafélags Reykdæla árið 1953. Félagsmálaferillinn spannar því brátt 70 ár. Á þessum langa tíma hefur hann starfað af ósérhlífni á mörgum vígstöðvum s.s. innan ungmennafélaga sinna í Borgarfirði og Kópavogi sem og innan FRÍ. Óhætt er að segja að stór hluti frítíma Magnúsar á þessum langa tíma hafi farið með einum eða öðrum hætti í störf í þágu æsku landsins. Alltaf boðinn og búinn, fyrstur á staðinn og síðastur heim.
Magnús var formaður FRÍ á árunum 1989 til 1993 eftir að hafa setið í stjórn sambandsins frá 1968, hann gegndi formennsku í fjölmörgum nefndum á vegum sambandsins og var m.a. fyrsti formaður landsliðsnefndar FRÍ, formaður skráninganefndar til margra ára og laganefndar, svo dæmi séu tekin. Enn er Magnús að, nú á níræðisaldri, í dag er hann í forystu uppstillingarnefndar FRĺ, situr í orðunefnd og hefur verið í framkvæmdanefnd RIG, Reykjavíkurleikanna í frjálsum.
Guðrún Karítas svæðismeistari
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) náði um helgina að verja svæðismeistaratitil sinn í sleggjukasti kvenna á Atlantic 10 Conferece Outdoor Championships. Guðrún var vel frá sínu besta en lengsta kastið hennar mældist 55,72m en hún á best 63,96m. Guðrún er með 26. lengsta kastið í bandarískum háskólum í ár og er næst á dagskrá hjá henni er forkeppnin fyrir bandaríska háskólameistaramótið (NCAA East Preliminaries) sem fer fram í Jacksonville í Flórída.