VIKAN: Kolbeinn jafnaði Íslandsmetið í 100m hlaupi

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

VIKAN: Kolbeinn jafnaði Íslandsmetið í 100m hlaupi

Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) jafnaði á laugardag Íslandsmet Ara Braga Kárasonar í 100m hlaupi frá 2017 á Trond Mohn Games í Bergen í Noregi. Kolbeinn kom fjórði í mark á tímanum 10,51 sek. (-0,7m/s).

„Tilfinningin fyrir mótið sjálft var góð og ég var frekar jákvæður og vongóður fyrir þetta,“ sagði Kolbeinn. 

Trond Mohn Games er hluti af World Athletics Continental Tour Silver mótaröðinni og er flokkað sem B mót sem veitir góð auka stig fyrir stöðu á heimslista fyrir komandi stórmót. Það er því gríðarlega strekt að eiga marga íslenska keppendur á svona sterku móti.

Guðni Valur Guðnason (ÍR) sigraði í kringlukasti karla á mótinu. Guðni kastaði 63,83m í síðustu umferð sem er nýtt ársbesta hjá honum. Mímir Sigurðsson (FH) var einnig á meðal keppenda í kringlukasti og kastaði 53,23m og varð áttundi. Daníel Ingi Egilsson (FH) varð þriðji langstökki með stökki upp á 7,61m (+0,1m/s) sem er bæting hjá honum. Irma Gunnarsdóttir (FH) varð í fimmta sæti í þrístökki með 13,23m (+0,2m/s). Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir varð sjötta í 200m hlaupi á tímanum 24,05 sek. (+0,1m/s). Hilmar Örn Jónsson (FH) varð sjötti í sleggjukasti með kasti upp a 72,79m.

Á miðvikudaginn fer fram Copenhagen Athletics Games í Kaupmannahöfn sem er World Athletics Continental Tour Bronze mót. Mótið er flokkað sem C mót og eigum við þar sex keppendur. Kolbeinn Höður hleypur 100m og 200m og Guðbjörg Jóna 200m. Irma Gunnarsdóttir, Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik) og Daníel Ingi keppa í langstökki og Aníta Hinriksdóttir (FH) í 800m hlaupi. Tímaseðil og úrslit má finna hér.

Sjö verðlaun á Smáþjóðaleikunum

Um helgina lauk keppni á Smáþjóðaleikunum sem fóru fram á Möltu dagana 30. maí, 1. og 3. júní. Lið Íslands vann ein gullverðlaun, ein silfurverðlaun og fimm bronsverðlaun. Örn Davíðsson (Selfoss) sigraði í spjótkasti karla með kasti upp á 71,69m sem er hans besti árangur í ár. Hægt er að lesa meira um gengi íslenska liðsins hér.

Framundan

Það eru mörg mót framundan hjá íslensku frjálsíþróttafólki í vikunni. Í morgun fór landsliðshópurinn okkar í utanvegahlaupum til Austuríkis þar sem Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum fer fram. Keppni hjá íslenska liðinu hefst 8. júní og má finna upplýsingar og landsliðsvalið hér. Nánari frétt um mótið kemur síðar.

Þrír Íslendingar keppa á bandaríska háskólameistaramótinu í Austin, Texas sem fer fram dagana 7.-10. júní. Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) keppa í sleggjukasti kvenna og Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) keppir í kúluvarpi kvenna. Nánari upplýsingar um úrslit og mótið koma síðar.

Norðurlandameistaramótið í fjölþrautum fer fram í Svíþjóð um helgina. Hópurinn verður tilkynntur fljótlega.

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

VIKAN: Kolbeinn jafnaði Íslandsmetið í 100m hlaupi

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Dæmi um leit