Á laugardaginn bætti Erna eigið Íslandsmet í kúluvarpi. Erna Sóley Gunnarsdóttir bætti í nótt eigið Íslandsmet um tíu sentímetra á heimamótinu sínu, J. Fred Duckett Twilight mótinu í Houston, Texas. Erna sigraði í keppninni með yfirburðum og kastaði lengst 17,39 metra en fyrra metið hennar setti hún í mars á síðasta ári. Erna á nú tólfta lengsta kast í kúluvarpi kvenna utanhúss í NCAA (bandarískum háskólum) í ár.
Erna bætti þrívegis eigið Íslandsmet innanhúss í vetur og kastaði þá lengst 17,92 metra. Framundan hjá Ernu er svæðismeistaramót (Conference-USA) sem fer fram eftir tvær vikur. Erna hefur tvívegis sigrað svæðismeistarmótið en það gerði hún árin 2019 og 2022. Hún varð einnig svæðismeistari innanhúss í ár.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir er búin að eiga frábæra byrjun á tímabilinu og bætti hún sinn persónulega árangur í sleggjukasti á Tom Jones Memorial í Flórída um miðjan apríl. Hún kastaði lengst 63,96 metra sem er stórbæting á fyrra persónulega meti sem var áður 61,74 metrar sem hún náði í byrjun apríl. Guðrún keppti aftur um helgina á Georgia Tech Invitational og náði þar aftur glæsilegu kasti, þar kastaði hún 62,97 metra sem er annað lengsta kast hennar á ferlinum og skilaði það henni öðru sæti.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir, Íslandsmethafi í sleggjukasti kvenna, var einnig að keppa um helgina í Waco, Texas á Micheal Johnson Invitational. Hún varð önnur með kast upp á 62,12 metra.
108. Víðavangshlaup ÍR fór fram á sumardaginn fyrsta en hlaupið var jafnframt meistaramót í 5 km götuhlaupi. Sigurvegarar og Íslandsmeistarar í 5 km götuhlaupi voru þau Andrea Kolbeinsdóttir (ÍR) á tímanum 16:27 mín og Hlynur Andrésson á tímanum 14:52 mín. Tímar sigurvegaranna eru á meðal þeirra bestu sem íslendingar hafa náð í 5 km götuhlaupi. Góð og skemmtileg stemning var á meðal hlaupara við Austurvöll en alls voru 500 manns skráðir í Víðavangshlaupið og 60 í skemmtiskokkið.


Næsta meistaramót í götuhlaupum er Meistaramót Íslands í hálfu maraþoni á Akureyri sem fer fram 6. júlí samhliða Akureyrarhlaupi UFA.