Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) varð á fimmtudag svæðismeistari í sleggjukasti á Sun Belt Outdoor Championships, í Myrtle Beach í Suður Karólínu en þetta er hennar fyrsta svæðismeisarmót í Bandaríkjunum. Elísabet bætti um leið eigið Íslandsmet í sleggjukasti kvenna og er þetta er jafnframt aldursflokkamet í flokki U23 ára. Sleggjan fór 65,53 metra í fimmtu umferð og var fyrra met hennar 65,35 metrar sem hún setti í Þýskalandi á síðasta ári. Elísabet er nú með 17. lengsta kastið í bandarískum háskólum (NCCA) í ár. Liðs- og æfingafélagi hennar, Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) varð sömuleiðis svæðismeistari í sleggjukasti á sínu meistarmóti síðustu helgi og er í 26. sæti á þeim lista. Næst á dagskrá hjá þeim er forkeppnin fyrir bandaríska háskólameistaramótið sem fer fram dagana 24.-27. maí.
Baldvin Þór Magnússon (UFA) varð svæðismeistari í 1500m hlaupi á MAC Outdoor Championships í Akron, Ohio á laugardag. Baldvin Kom í mark á tímanum 3:46,24 mín en Íslandsmet hans í greininni er 3:40,36 mín. Baldvin varð svo annar í 10.000m hlaupi á tímanum 30:03,54 og svo þriðji í 5000m hlaupi á tímanum 14:13,76 mín.
Erna Sóley Gunnarsdóttir varð önnur í kúluvarpi á svæðismeistaramót C-USA í Denton, Texas í gær. Erna varpaði kúlunni 16,96 metra en Íslandsmet hennar í greininni er 17,39 metrar. Erna er með 16. lengsta kastið í bandrískum háskólum (NCCA) í ár. Kristján Viggó Sigfinnsson varð þriðji í hástökki karla á sínu fyrsta svæðismeitstaramóti, Pac-12 Conference Championships en hann stökk 2,09 metra en hefur stokkið hæst 2,15 metra utanhúss í ár. Þau munu bæði taka þátt í forkeppninni fyrir bandaríska háskólameistaramótið.
Hilmar með flottan árangur í Nairobi
Íslandsmethafinn í sleggjukasti karla, Hilmar Örn Jónsson (FH) varð fjórði á Kip Keino Classic sem er hluti af Continental Tour Gold mótaröðinni sem er eitt af sterkustu mótaröðunum sem keppt er í í frjálsum íþróttum. Hilmar náði sínum ársbesta árangri og kastaði lengst 74,11m. Næst á dagskrá hjá Hilmari er kastmót í Halle í Þýskalandi en hann sigraði á því móti á síðasta ári.