VIKAN: HM lágmark

Baldvin Þór

Penni

2

min lestur

Deila

VIKAN: HM lágmark

Það var mikið um að vera í Bandaríkjunum um helgina. Baldvin Þór Magnússon (UFA) náði lágmarki á HM innanhúss í 3000 metra hlaupi á  David Hemery Valentine Invite í Boston, Massachusetts. Hann bætti um leið Íslandsmetið sitt í greininni um rúmar sex sekúndur og kom í mark á tímanum 7:47,51 mín. Heimsmeistaramótið fer fram í Belgrad í Serbíu dagana 18.-20. mars. 

Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) var aðeins 20 sentímetrum frá Íslandsmeti sínu í kúluvarpi innanhúss á Howie Ryan Invitational í Houston, Texas. Erna varpaði kúlunni 16,75 m. og sigraði keppnina með yfirburðum. Erna er með 19. besta árangurinn í  NCAA í kúluvarpi kvenna í ár með 16,90 metra sem hún náði á Fastrak Collegiate Challenge í janúar.  

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) bætti sinn persónulega árangur í lóðkasti og lenti í öðru sæti á Kenneth Giles Invitational sem fram fór í Virginia Beach í Virginia. Hún kastaði lengst 18,22 m sem var aldursflokkamet í 20-22 ára flokki í tæpan sólarhring áður en Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) bætti það á Norðurlandameistaramótinu um helgina með kast upp á 19,98 m. Kast Guðrúnar er þriðja lengsta kast í lóðkasti kvenna frá upphafi.

Íslandsmet hjá sleggjukösturunum

Norðurlandameistaramótið innanhúss fór fram í Uppsala í Svíþjóð um helgina. Ísland átti sex fulltrúa á mótinu en Ísland er með sameiginlegt lið með Dönum.

Það féllu tvö Íslandsmet á mótinu en Elísabet Rut Rúnarsdóttir bætti Íslandsmet Vigdísar Jónsdóttur (FH) í lóðkasti er hún kastaði 19,98 m. Þetta er einnig aldursflokkamet í 20-22 ára flokki. Elísabet hafnaði í fimmta sæti en það var Finninn Silja Kosonen sem sigraði með kast upp á 21.51 m.

Hilmar Örn Jónssson (FH) bætti eigið Íslandsmet í lóðkasti er hann kastaði 21,96 m. Hann hafnaði einnig í 5. sæti en það var Svíinn Ragnar Carlsson sem sigraði með kast upp á 23.12 m.

Aníta með flotta opnun og Arnar með aldursflokkamet

Aníta Hinriksdóttir (FH) opnaði tímabilið sitt um helgina í 800 metra hlaupi á Meeting Metz Moselle Athlelor í Metz, Frakklandi. Hún var fjórða í sínum riðli á tímanum 2:05,20 mín. Aníta er búsett i Sviss þar sem hún stundar nám og æfir hjá svissneskum landsliðsþjálfara. 

Arnar Logi Brynjarsson (ÍR) keppti um helgina á England Athletics Age Group Indoor Championships í Sheffield í Englandi. Hann vann bæði 60 metra og 200 metra hlaup í sínum aldursflokki og stórbætti um leið aldursflokkamet í 200 metra hlaupi. Hann kom í mark á tímanum 23,03 sek en fyrra metið var 23,42 sek.

Penni

2

min lestur

Deila

VIKAN: HM lágmark

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit