Um helgina fór fram Bauhaus Juniroren-Gala í Mannheim í Þýskalandi. Á mótinu er keppt í U20 ára flokki og er þetta mjög sterkt alþjóðlegt mót þar sem yfir 400 keppendur taka þátt frá löndum víðsvegar um heiminn.
Kristján Viggó Sigfinnsson (Ármann) sigraði í hástökki með stökk upp á 2,15 metra sem er persónuleg bæting utanhúss. Eva María Baldursdóttir (Selfoss) var í fimmta sæti í hástökki með stökk upp á 1,76 metra sem er jöfnun á hennar ársbesta árangri. Arndís Diljá Óskarsdóttir (FH) var í sjötta sæti í spjótkasti með kast upp á 44,18 metra. Glódís Edda Þuríðardóttir bætti sinn árbesta árangur í 100 metra grindahlaupi og kom í mark á tímanum 14,33 sek. Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson (Ármann) keppti í 100 metra hlaupi og kom í mark á tímanum 11,00 sek. sem er persónuleg bæting. Í 200 metra hlaupi bætti hann einnig sinn persónulega árangur og kom í mark á tímanum 21,93 sek.
HM Masters
Fjörið heldur áfram í Finnlandi á HM Masters.
Einar Kristjánsson (FH) hlaut brons í hástökki í M50 flokki um helgina. Hann stökk 1,65 metra og deildi þriðja sætinu með Spánverjanum Victor Sarmiento.
Jón Bjarni Bragason (Breiðablik) hafnaði í 7. sæti í lóðkasti (11.34 kg) í flokki M50 og bætti sig um hálfan metra. Hann kastaði 19,20m.
Á morgun, þriðjudag, keppir Helgi Hólm (Keflavík) í hástökki í flokki M80. Á miðvikudag kastar Jón Bjarni kringlu og keppir loks í kastþraut á föstudag.