Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) bætti eigið skólamet í sleggjukasti er hún kastaði 59,35 metra á South Florida Invitational í Tampa, Flórída. Hún keppir fyrir Virginia Commonwealth University. Fyrra metið hennar var 57,49 metrar sem hún setti á Black and Gold Invitational 19. mars. Guðrún er með lengsta kastið í Atlantic 10 svæðinu í sleggjukasti og fer svæðismeistaramót Atlantic 10 fram dagana 7.-8. maí.
„Fílingurinn á mótinu var góður. Sleggjan var fyrsta grein svo völlurinn var nánast tómur en það var gott veður og kastararnir mættu að hvetja. Serían var fín, tæknin hefði mátt vera betri en hitti á það þarna í einu kasti. Það er fullt inni. Þýðir ekkert að stoppa núna, sérstaklega þegar að 60 metrarnir eru handan við hornið,“ sagði Guðrún
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) sigraði með yfirburðum í kúluvarpi á 44 Farms Team Invitational í College Station, Texas. Erna kastaði lengst 16,70 metra og var aðeins einum sentímetra frá mótsmetinu sínu sem hún setti á síðasta ári. Erna er með lang lengsta kastið á Conference USA svæðinu í kúluvarpi utanhúss, 17,29 metrar sem er Íslandsmetið sem hún setti fyrir rúmum tveimur vikum síðan. Hún er einnig með sjöunda lengsta kastið í NCAA í kúluvarpi utanhúss.
Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) sigraði í spjótkasti á Joe Walker Invitational í Oxford, Mississippi. Dagbjartur kastaði lengst 75,19 metra og náði því í annari tilraun. Dagbjartur er með annað lengsta kastið á SEC svæðinu og þriðja lengsta kastið í NCAA með 76,79 metra sem hann kastaði á Al Schmidt Bulldog Relays 23. mars.
Önnur úrslit frá Bandaríkjunum:
Dagur Andri Einarsson (ÍR / Hillsdale Chargers) / 200m / 22,41 (+3,1) – Flames Invitational
Hekla Sif Magnúsdóttir (FH / WT ) Langstökk / 5,54m (+1,8) – Jo Meaker Classic and Multi
Kristófer Konráðsson (Afturelding / LB) 400m / 50,65 – Challenge Cup
Óliver Máni Samúelsson (Ármann / Hillsdale Chargers) / 200m (+3,1) – Flames Invitational
Thelma Lind Kristjánsdóttir (ÍR / UVA) / Kringlukast / 51,49m – Duke Invitational
Fyrsta kastmótið á ÍR velli
Fyrsta kastmótið á ÍR velli fór fram í Breiðholti á laugardag og náðu þeir Guðni Valur Guðnason (ÍR) og Mímir Sigurðsson (FH) sínum ársbesta árangri þar. Guðni kastaði 63,69 metra og Mímir 59,06 metra sem er annað lengsta kast hans á ferlinum.
Afhending viðurkenninga til íþróttafólks sérsambanda ÍSÍ 2021
Vegna stöðu kórónuveirufaraldursins í desember síðastliðnum þá varð að fresta afhendingu viðurkenninga til íþróttafólks sérsambanda ÍSÍ ársins 2021.
Á föstudag fór sú afhending fram við hátíðlega athöfn á Grand Hótel Reykjavík að viðstöddu íþróttafólkinu, fulltrúum sérsambanda ÍSÍ, Heiðursfélögum ÍSÍ, framkvæmdastjórn ÍSÍ og fulltrúum þeirra fyrirtækja sem standa að Ólympíufjölskyldu ÍSÍ.
Guðni Valur Guðnason og Erna Sóley Gunnarsdóttir voru frjálsíþróttakarl og frjálsíþróttakona ársins 2021 og fengu því verðlaunagripi frá ÍSÍ.