Guðni Valur Guðnason (ÍR) keppti í kringlukasti á Innanfélagsmóti ÍR en hann er á fullu að undirbúa sig fyrir EM sem fer fram í Munchen í næstu viku. Guðni Valur kastaði lengst 64,37 metra en hann er búinn að kasta lengst 65,27 metra í ár.
Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) nálgast Íslandsmetið í 100m hlaupi. Kolbeinn vann 100m hlaup karla á þriðja og síðasta mótinu í Nike mótaröð FH og kom í mark á tímanum 10,56 sek. (+1,4). Þetta er persónulegt met hjá honum en fyrir átti hann best 10,58 sek. frá árinu 2017. Tími Kolbeins í gær er fimm hundraðshluta úr sekúndu frá Íslandsmeti Ara Braga Kárasonar frá árinu 2017.
Á unglingalandsmótinu setti hin unga og efnilega Freyja Nótt Andradóttir (FH) aldursflokkamet í fjórum aldursflokkum í 60m hlaupi utanhúss. Hún kom í mark á tímanum 8,00 sek. (+0,7) sem er jöfnun á hennar besta árangri innanhúss. Hún er aðeins 12 ára gömul og bætti aldursflokkametið í 12 ára, 13 ára, 14 ára og 15 ára flokki. Hún bætti einnig aldursflokkamet í þrístökki 12 ára stúlkna með stökk upp á 10,26 metra (+0,6). Bryndís Embla Einarsdóttir bætti aldursflokkamet í spjótkasti stúlkna 13 ára (400g) er hún kastaði 42,26 metra.