Um helgina fór fram Norðurlandameistaramót U20 ára á Bislett vellinum í Osló, Noregi. Birta María Haraldsdóttir (FH) varð Norðurlandameistari U20 ára í hástökki á glæsilegri sjö sentímetra persónulegri bætingu. Birta flaug yfir 1,80m í fyrstu tilraun og náði um leið lágmarki á Evrópumeistaramót U20 ára sem fer fram í Jerúsalem í Ísrael dagana 7.-10. ágúst. Arndís Diljá Óskarsdóttir (FH) og Hera Christensen (FH) eru einnig komnar með lágmark í spjótkasti og kringlukasti á EM U20. Hera varð einnig Norðurlandameistari U20 ára um helgina en hún sigraði í kringlukasti með kasti upp á 45,40m. Elías Óli Hilmarsson varð annar í hástökki með stökki upp á 1,99m. Heildarúrslit íslenska liðsins má finna hér.
Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) sigraði í spjótkasti á silfurmótinu Spitzen Leichtatletik í Luzern í Sviss. Dagbjartur kastaði lengst 76,73m í fimmtu umferð en hann er búinn að kasta lengst 78,56m í ár.