Um helgina fór fram Stórmót ÍR í Laugardalshöll og margt af okkar fremsta frjálsíþróttafólki var skráð til leiks. Fjórtán mótsmet voru sett í mismunandi aldursflokkum þar af fjögur í fullorðinsflokki.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) jafnaði eigið Íslandsmet í 60m hlaupi er hún kom í mark á tímanum 7,43 sek. sem er einnig mótsmet. Guðbjörg setti Íslandsmetið í janúar á síðasta ári. Tiana Ósk Whitworth (ÍR) opnaði tímabilið sitt á tímanum 7,64 sek. og varð önnur. Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik) var í þriðja sæti á tímanum 7,70 sek. sem er hennar ársbesti árangur.
Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) kom fyrstur í mark í 60m hlaupi karla á nýju mótsmeti, 6,72 sek. Hann var aðeins fjórum hundruðustu frá Íslandsmeti sínu sem hann setti í Kaplakrika 12. janúar. Gylfi Ingvar Gylfason (FH) varð annar og jafnaði sinn persónulega árangur og kom í mark á tímanum 6,98 sek. Færeyingurinn Jónas Isaksen varð þriðji á tímanum 7,07 sek sem er persónuleg bæting.
Kolbeinn varð einnig fyrstur í 200m hlaupi karla á tímanum 21,63 sek. sem er einnig mótsmet. Íslandsmetið hans í greininni er 21,21 sek. sem hann setti árið 2020 á AAC Championships í Bandaríkjunum.
Irma Gunnarsdóttir (FH) stórbætti persónulega metið sitt í langstökki sem setur hana í annað sætið í langstökki kvenna innanhúss frá upphafi. Hún átti frábæra seríu með fjögur af sex stökkum yfir gamla persónulega metinu sínu og stökk hún lengst 6,36 m. Það er aðeins Hafdís Sigurðardóttir sem hefur stokkið lengra en Íslandsmet hennar í greininni er 6,54 m. Í öðru sæti var Birna Kristín með stökk upp á 6,11 m. sem er einnig persónuleg bæting og aðeins einum sentímetra frá aldursflokkametinu í flokki U23.
Irma bætti síðan mótsmetið í þrístökki með stökk upp á 12,97 m. og var sextán sentímetrum frá eigin Íslandsmeti. Metið er 13,13 m. sem hún setti á Stökkmóti FH í desember. Irma er í hörkufromi og er hún skráð til leiks í þrísökki á Aarhus sprint n’ jump sem fer fram á miðvikudagskvöld í Árósum í Danmerku. Guðbjörg Jóna og Kolbeinn Höður verða einnig á meðal keppenda í sterku 60m hlaupi kvenna og karla.
Daníel Ingi Egilsson (FH) átti frábæra keppnishelgi og var aðeins sex sentímetrum frá Íslandsmetinu í þrístökki karla innanhúss. Daníel stökk lengst 15,21 m. og bætti sinn persónulega árangur innanhúss um þrettán sentímetra. Daníel á best utanhúss 15,31 m. sem hann stökk á NM U23 í Malmö á síðasta ári. Það er Kristinn Torfason (FH) sem á Íslandsmetið sem hann setti árið 2011. Í öðru sæti var Guðjón Dunbar Diaquoi Þorsteinsson (Breiðablik) stökk upp á 14,26 m. sem er persónuleg bæting.
Daníel náði einnig glæsilegum árangri í langstökki og bætti sinn persónulega árangur um ellefu sentímetra og stökk hann 7,35 m. Í öðru sæti var Færeyingurinn Eiri Jógvansson Glerfoss með stökk upp á 7,29 m. sem er persónuleg bæting og Guðjón Dunbar var í því þriðja með persónulega bætingu og stökk upp á 6,60 m.
Heildarúrslit mótsins má finna hér.
Myndbönd frá Silfrinu má finna hér.
Baldvin fyrstur í Notre Dame og Kristján Viggó með frumraun
Baldvin Þór Magnússon (UFA) kom fyrstur í mark í 3000m hlaupi í Notre Dame, Indiana á laugardag. Hann hljóp á tímanum 7:56,55 mín. en Íslandsmet hans í greininni er 7:47,51 mín. sem hann setti á síðasta ári og náði með því lágmarki á HM innanhúss þar sem hann komst í úrslit.
Kristján Viggó Sigfinnsson (Ármann) opnaði tímabilið sitt í Bandaríkjunum á laugardag. Hann var í öðru sæti með stökk upp á 2,09 m. Kristján keppir fyrir University of Arizona og hóf þar nám í haust.
Mótin framundan
Dagsetning | Mót | Staður | Aldur |
---|---|---|---|
28.-29. janúar | Meistaramót Íslands 15-22 ára | Kaplakriki | 15-22 ára |
5. febrúar | Reykjavíkurleikar | Laugardalshöll | Fullorðnir, U16 |
9. febrúar | Nike Mótaröðin II | Kaplakriki | Fullorðnir |
11.-12. febrúar | Meistarmót 11-14 ára | Laugardalshöll | 11-14 ára |
11.-12. febrúar | Norðurlandameistamótið innanhúss | Karlstad, Svíþjóð | Fullorðnir |