Um helgina fór fram forkeppni fyrir Bandaríska háskólameistaramótið (NCAA East/West Preliminary) og voru fjórir Íslendingar sem tóku þátt. Bandaríska háskólameistaramótið fer fram í Eugene, Oregon dagana 8.-11. júní.
Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) komst áfram í spjótkasti með kast upp á 72,50 metra og var í fimmta sæti í East Preliminary. Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) komst einnig áfram á meistaramótið í kúluvarpi með kast upp á 16,93 metra og var í tólfta sæti í West Preliminary.
Baldvin Þór Magnússon (UFA) keppti í undanúrslitum 5000 metra hlaupi á East Preliminary og kom í mark á tímanum 14:03,55. Hann komst ekki áfram í úrslitin í Eugene og hefði hann þurft að hlaupa undir 13:44.42.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) keppti í sleggjukasti og kastaði lengst 59,87 metra sem dugði ekki inn í úrslitin í Eugene. Guðrún hefði þurft að kasta yfir 64,59 til þess að komast áfram.
Flottur árangur á Selfossvelli
Það náðist frábær árangur á Selfoss Classic – 75 ára afmælismóti FRÍ á Selfossvelli á laugardag. Guðni Valur Guðnason (ÍR) náði sínum ársbesta árangri í kringlukasti og nálgast lágmörk á stórmót sumarsins. Hann kastaði lengst 64,87 metra og var þriðji á eftir heims og Ólympíumeistaranum Daniel Ståhl og silfurverðlaunahafanum á Ólympíuleikunum, Simon Pettersson. Lágmarkið inn á EM sem fer fram í München í ágúst er 65,20 metrar og lágmarkið á HM í Oregon er 66,00 metrar.
Hilmar Örn Jónsson (FH) er einnig að stefna á stóru mótin í sumar og kastaði vel um helgina. Hann kastaði lengst 74,95 og er lágmarkið á EM í sleggjukasti 77,00 metrar og á HM 77,50 metrar.
Vormót ÍR
Vormót ÍR fór fram á nýja ÍR vellinum í Mjóddinni í gær. Mótið í ár var sannkallað vígslumót nýja ÍR vallarins sem félagið fékk formlega afhentan 10. maí.
Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) hljóp á glæsilegum tíma í 100 metra hlaupi, 10,64 sek. (+1,3) sem er hraðasti tími Íslendings í ár. Í öðru sæti var Gylfi Ingvar Gylfason (FH) á nýju perónulegu meti 11,14 (+1,3) og Sæmundur Ólafsson var í því þriðja á tímanum 11,26 (+1,3) sem er einnig persónulegt met.
Bandaríkjamennirnir sem kepptu á Selfoss Classic komu og tóku þátt í kringlukasti með Guðna Val og fleirum Íslendingum. Það var Sam Mattis sem vann keppnina með kast upp á 63,47 metra. Guðni Valur var í öðru með 61,97 metra og Legend Boyesen Hayes í því þriðja með 60,38 metra.
Á Vormóti ÍR var einnig keppt í 3000m hlaupi karla, svokölluðu Kaldalshlaupi, sem haldið er til minningar um ÍR-inginn Jón Kaldal. Í vor og sumar eru 100 ár liðin frá því að hann setti sín síðustu met í 3000 metrum 9:01,5 mín. og 5 km hlaupi 15:23,0 mín, en þessi met stóðu óhögguð í áratugi. Það var Stefán Kári Smárason (Breiðablik) sem sigraði í hlaupinu á tímanum 9:46,53.