Baldvin Þór Magnússon (UFA) hljóp á laugardag á besta tíma Íslendings frá upphafi í míluhlaupi innanhúss á Meyo Invitational mótinu í Notre Dame, Indiana. Hann kom fyrstur í mark á tímanum 3:58.08 mín. og er þetta í fyrsta sinn sem hann hleypur undir fjórar mínútur. Þar sem hlaupið fór fram á 300 metra braut telst það ekki sem Íslandsmet.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) setti aldursflokkamet í 20-22 ára flokki í lóðkasti á Doc Hale Virginia Tech Elite mótinu í Blacksburg, Virginia um helgina. Þetta er einnig annað lengsta kast frá upphafi í lóðkasti kvenna en það er Vigdís Jónsdóttir sem á Íslandsmetið í greininni, 18,18 metrar. Það verður spennandi að sjá hvort Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) nái að bæta aldursflokka- og Íslandsmetið í greininni þar sem hún keppir í lóðkasti á Norðurlandameistaramótinu sem fram fer í Uppsala í Svíþjóð um helgina. Þetta verður í fyrsta sinn sem keppt er í lóðkasti á þessu móti og einnig frumraun Elísabetar í greininni.
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) keppti einnig um helgina og hafnaði í öðru sæti í kúluvarpi á Charlie Thomas Invitational mótinu í Texas í gær. Hún varpaði kúlunni 16.31 metra en Íslandsmet hennar í greininni er 16,95 metrar.
Hin unga og efnilega Freyja Nótt Andradóttir (FH) bætti eigið aldursflokkamet í 60 metra hlaupi í 12 og 13 ára flokki er hún sigraði á Reykjavík International Games í U16 ára hlaupi stúlkna á tímanum 8,06 sek. Freyja Nótt er aðeins 12 ára gömul og er búin að hlaupa á sjötta hraðasta tíma kvenna í ár.
Á morgun keppir Hlynur Andrésson (ÍR) í 3000 metra hlaupi á Míting Internacional de Catalunya en Pista Coberta í Sabadell á Spáni. Hann ætlar að freista þess að ná lágmarki á HM innanhúss sem fram fer í Belgrade í Serbíu í mars. Lágmarkið er 7:50,00 mín. og á hann best 7:54,72 mín (utanhúss).