Kolbeinn Höður Gunnarsson átti glæsilegt mót á Reykjavíkurleikunum sem fóru fram í Laugardalshöll í gær. Hann byrjaði mótið á því að sigra í 60 metra hlaupi karla á tímanum 6,72 sek. sem eru fjórir hundruðustu frá Íslandsmeti hans sem hann setti í janúar. Kolbeinn hljóp síðan frábært 200 metra hlaup þar sem hann kom í mark á nýju Íslandsmeti, 21,03 sek sem er stórbæting á eigin meti frá árinu 2020 sem var 21,21 sek. Íslandsmet Kolbeins í 200 metra hlaupi utanhúss er 20,96 sek. frá 2017.
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) nálgast nú átján metrana í kúluvarpi en Erna stórbætti á laugardag eigið Íslandsmet í kúluvarpi kvenna innanhúss á New Mexico Collegiate Classic í Albuquerque í New Mexico. Hún bætti eigið met í Texas fyrir rúmri viku síðan og svo aftur á laugardag. Metið kom í síðastu tilraun og varpaði hún kúlunni 17,70 metra en fyrra metið var 17,34 metra. Í upphafi tímabils átti hún best 16,95 metra innanhúss en var þó búin að kasta nokkrum sinnum yfir sautján metra utanhúss og er Íslandsmet hennar utanhúss 17,29 metrar.
Baldvin Þór Magnússon (UFA) hljóp á laugardag á besta tíma Íslendings frá upphafi í mílu hlaupi innanhúss á Meyo Invitational í Notre Dame, Indiana. Baldvin átti sjálfur besta tímann en hann hljóp það á þessu móti á síðasta ári og hljóp þá á tímanum 3:58.08. Hann bætti þann árangur á laugardag þegar hann hljóp á tímanum 3:57.12. Hann fær tímann þó ekki viðurkenndan sem Íslandsmet þar sem hlaupið fór fram á 300 metra braut.
Norðurlandameistaramótið innanhúss fer fram í Karlstad í Svíþjóð á sunnudaginn 12. febrúar. Íslendingar og Danir tefla fram sameiginlegu liði og verða valdir tveir íþróttamenn í hverja grein óháð þjóðerni. Liðið verður tilkynnt á morgun.
Næstu mót
9. febrúar | Nike mótaröðin | Kaplakriki | Fullorðnir |
11-12. febrúar | MÍ 11-14 ára | Laugardalshöll | 11-14 ára |
12. febrúar | NM innanhúss | Karlstad | Fullorðnir |
18-19. febrúar | Meistaramót Íslands | Laugardalshöll | Fullorðnir |
24-26. febrúar | NM Masters | Laugadalshöll | Masters |