VIKAN: EM U23 lágmark í Bandaríkjunum

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

VIKAN: EM U23 lágmark í Bandaríkjunum

Utanhúss tímabilið í Bandaríkjunum er í fullum gangi og náðist enn og aftur glæsilegur árangur um helgina. Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) stórbætti sinn persónulega árangur í sleggjukasti á VertKlasse Meeting í Norður-Karólínu á laugardag. Guðrún kastaði lengst 61,74 m. sem er jafnframt lágmark á EM U23 sem fer fram í Espoo í Finnlandi í miðjan júlí en lágmarkið í greininni er 61,00m. Guðrún átti áður 60,14 metra frá því á síðasta ári. Nú eru þrír íþróttamenn komnir með lágmark á mótið og tvær í sömu grein en liðsfélagi Guðrúnar og Íslandsmethafinn í sleggjukasti, Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR), er einnig komin með lágmark. Kristján Viggó Sigfinnsson (Ármann) er svo kominn með lágmark í hástökki.

Um helgina fór fram Texas Relays í Austin, Texas og áttum við þar þrjá keppendur. Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) varð í fimmta sæti í kúluvarpi með kasti upp á 16,96 m. Íslandsmet Ernu í greininni utanhúss er 17,29 metra en hún átti stórkostlegt tímabil innanhúss þar sem hún bætti Íslandsmet sitt innanhúss þrisvar sinnum sem endaði í 17,92 m. Það er því tímaspursmál hvenær Erna bætir metið sitt utanhúss.

Það var mikið um að vera hjá Elísabetu Rut en hún keppti á tveimur mótum um helgina og náði glæsilegum árangri á þeim báðum. Elísabet byrjaði keppnishelgina á Texas Relays á fimmtudaginn þar sem hún varð í fimmta sæti með kasti upp á 64,43 metra sem er hennar ársbesti árangur og annað lengsta kastið á ferlinum. Íslandsmet hennar í greininni er 65,35 m. Elísabet keppti svo á heimamóti á laugardag í San Marcos í Texas þar sem hún kastaði 64,12 m. og varð í þriðja sæti.

Þrautarkonan Glódís Edda Þuríðardóttir (KFA) var hluti af 4x400m boðhlaupsveit University og Texas at Arlington þar sem hún hljóp þriðja sprett. Hún náði að vinna sína sveit upp um sæti og lenti sveitin í sjötta sæti af níu í riðlinum. Milltími hennar var um 55,7 sek. Glódís tekur sína fyrstu sjöþraut tímabilsins í um miðjan apríl.

Eva María Baldursdóttir (Selfoss) sigraði í hástökki á Florida Relays sem fór fram í Gainsville Florida. Eva stökk 1,74 m. en hún er búin að stökkva 1,77 hæst í ár. Eva keppir fyrir University of Pittsburg og er, eins og Elísabet og Glódís, á sínu fyrsta ári í Bandaríkjunum. Það verður spennandi að sjá hvað Selfyssingurinn gerir á þessu tímabili en hún er að stefna á lágmarki á EM U23 sem er 1,81 m. og jafnframt hennar persónulegi besti árangur.

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

VIKAN: EM U23 lágmark í Bandaríkjunum

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Dæmi um leit