VIKAN: EM í víðavangshlaupum og glæsilegur árangur á Aðventumóti Ármanns

VIKAN: EM í víðavangshlaupum og glæsilegur árangur á Aðventumóti Ármanns

Hlynur Andrésson keppti á EM í víðavangshlaupum sem fór fram í Piemonte-La Mandria garði nálægt Turin á Ítalíu í gær. Hlynur kom 55. í mark á tímanum 31:53 mín. (10.000m) af 83 keppendum

„Hlaupið var töluvert erfiðara en ég hélt að það yrði. Ég hef verið í maraþonundirbúningi og vildi taka þátt vegna þess að ég hélt ég gæti hlaupið vel og af því að keppnin var ca 3 klst. frá þar sem ég bý. En kúrsinn endaði á því að vera sá erfiðasti sem ég hef hlaupið hingað til og ég var einfaldlega ekki nógu undirbúinn fyrir tæknilegu kaflanna og kröppu brekkurnar. Stemningin var hinsvegar frábær og Ítalarnir settu upp mjög skemmtilegt mót. Það var gaman að vera þarna þó svo að hlaupið hafi ekki alveg farið eins og ég ætlaði mér,“ sagði Hlynur.

Það er margt spennandi framundan hjá Hlyni.

„Ég keppi sennilega á gamlársdag í 10km götuhlaupi í Bolzano hérna á Ítalíu, svo fer ég til Namibíu í fjögurra vikna æfingabúðir til að klára maraþonundirbúninginn fyrir Seville maraþonið sem er 19. febrúar, þannig að ég hlakka til að hlaupa mitt annað maraþon þá“. 

Frábær árangur á Aðventumóti Ármanns

Um helgina fór fram Aðventumót Ármanns í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Alls tóku um 280 keppendur á öllum aldri þátt í mótinu sem var í þremur mótshlutum.

Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) var aðeins tveimur hundruðustu frá tæplega 30 ára gömlu Íslandsmeti Einars Þórs Einarssonar í 60 metra hlaupi. Hann kom í mark á tímanum 6,82 sek. og bætti sinn persónulega árangur um einn hundraðshluta. Í öðru sæti var Dawid Boc (FH) á tímanum 7,06 sek. og í þriðja sæti var Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson (Ármann) á tímanum 7,08 sek. og bættu þeir báðir einnig sinn persónulega árangur. Kolbeinn sigraði einnig í 200 metra hlaupi karla á tímanum 21,83 sek en hann á best 21,21 sek. innanhúss sem er einnig Íslandsmetið í greininni.

Irma Gunnarsdóttir (FH) opnaði á glæsilegu persónulegu meti í langstökki er hún stökk 6,14 metra. Irma átti frábæra seríu og átti þrjú stökk yfir sex metra en lengsta stökkið hennar setur hana í þriðja sæti í langstökki kvenna innanhúss frá upphafi. Í öðru sæti var Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðablik) með 5,54 metra og Júlía Mekkín Guðjónsdóttir (ÍR) í því þriðja með 5,51 metra og bættu þær báðar sinn persónulega árangur.

Júlía Kristín kom fyrst í mark í 60 metra hlaupi kvenna á nýju persónulegu meti 7,77 sek. Hún sigraði einnig í 200 metra hlaupi á tímanum 25,69 sek. Í öðru sæti í 60 metra hlaupi var liðsfélagi hennar, Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik), sem kom í mark á tímanum 7,81 sek. og María Helga Högnadóttir (Ármann) var í því þriðja á tímanum 8,00 sek. sem er persónuleg bæting.

Eitt aldursflokkamet var sett á mótinu. Það var Karl Sören Theodórsson (Ármann) sem setti það þegar hann stökk 2,91 metra í stangarstökki 13 ára pilta. Sóley Kristín Einarsdóttir (ÍR) sigraði í hástökki kvenna með stökk upp á 1,70 metra sem er bæting á hennar besta árangri. Gerði hún atlögu að aldursflokkameti í greininni þegar hún reyndi við 1,73m. Daníel Ingi Egilsson (FH) sigraði í þrístökki karla með 14,35 metra og annar var Guðjón Dunbar Diaquoi Þorsteinsson (Breiðablik) á nýju persónulegu meti, 14,24 metrar.

Á Aðventumóti Ármanns fá þeir keppendur sem ná yfir 900 afreksstig samkvæmt stigatöflu Alþjóða Frjálsíþróttasambandsins (WA) viðurkenningu. Það var Kolbeinn Höður sem var með stigahæsta afrekið en alls níu afrek voru yfir 900 afreksstigum. Hægt er að skoða sigalistann á mótinu samkvæmt stigatöflu WA hér.

Myndir: Frjálsíþróttadeild Ármanns

Mót vikunnar

MótStaðurDagsetningAldur
StangarstökksmótSelfosshöllin12. desemberBlandað
Jólamót SelfossJólamót Selfoss14. desember9 ára og yngri
Stökkmót FHKaplakriki17. desemberBlandað

Mótaskrá FRÍ má finna hér. 

VIKAN: EM í víðavangshlaupum og glæsilegur árangur á Aðventumóti Ármanns

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Dæmi um leit