Á laugardag fór fram 17. Bikarkeppni FRÍ í boði Lindex í Kaplakrika. Það voru FH-ingar sem urðu bikarmeistarar innanhúss en félagið hefur sigrað síðustu þrjú skiptin, árin 2020, 2022 og í ár. Árið 2021 fór keppnin ekki fram vegna faraldursins.
Tvö mótsmet voru sett á mótinu. Irma Gunnarsdóttir (FH) setti mótsmet í þrístökki kvenna er hún varð bikarmeistari með stökki upp á 13,16 metra. Irma varð einnig bikarmeistari í kúluvarpi með nákvæmlega sömu lengd, 13,16 metra. Irma átti glæsilegt innanhúss tímabil, bætti Íslandsmetið í þrístökki og kom sér í annað sæti á topplista kvenna í langstökki innanhúss.
Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) setti mótsmet í 60 metra metra hlaupi. Hann kom í mark á tímanum 6,81 sek. Kolbeinn var einnig með frábæra endurkomu í 400 metra hlaupi og varð bikarmeistari í greininni á tímanum 47,87 sek. Kolbeinn á Íslandsmetið í greininni innanhúss, 47,59 sek, sett árið 2015. Sama ár fór Kolbeinn á sitt fyrsta stórmót, EM innanhúss í Prag í 400 metra hlaupi. Íslandsmetið utanhúss á hinsvegar Oddur Sigurðsson, 45,36 sek. frá árinu 1984 sem var lengi vel Norðurlandamet í greininni.
Lið HSK/Selfoss enduðu á toppnum í Bikarkeppni FRÍ 15 ára yngri. Liðið sigraði einnig í piltakeppninni en það var lið ÍR sem sigraði í stúlknakeppninni. Fjögur mótsmet féllu á mótinu:
- Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, HSK/Selfoss / Kúluvarp / 14,86m
- Ívar Ylur Birkisson, HSK/Selfoss / 60m grindahlaup (84.0cm) / 8,56 sek.
- Freyja Nótt Andradóttir, ÍR / 60m / 7,64 sek
- Júlía Mekkín Guðjónsdóttir, ÍR / Langstökk / 5,41m
Elísabet og Guðrún opnuðu sleggjutímabilið í Bandaríkjunum
Íslandsmethafinn í sleggjukasti kvenna Elísabet Rut Rúnarsdóttir sigaði í fyrstu sleggjukastkeppni sinni í Bandaríkjunum á UTSA Invitational í San Antonio í Texas. Elísabet kastaði 61,99 metra en Íslandsmet hennar í greinninni er 65,35 metrar. Elísabet keppir fyrir Texas State University og er á sínu fyrsta ári.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir átti frábært tímabil í lóðkastinu í Bandaríkjunum í vetur og opnaði um helgina sleggjukast tímabilið sitt á UCF Black and Gold Invite. Guðrún kastaði lengst 60,02 metra sem er við hennar besta en hún á 60,14 metra. Guðrún keppir fyrir Viginia Commonwealth University og er á öðru ári.