Baldvin Þór Magnússon (UFA) keppti á svæðismeistaramóti MAC (Mid American-Conference) í 8km víðavangshlaupi á laugardag í Athens, Ohio. Baldvin kom í mark á tímanum 23:45,1 mín. sem skilaði honum þriðja sæti. Hann fékk þar með heiðurinn All MAC en alls fengu þrír í liðinu hans, Eastern Michigan háskólann, þann heiður. Hlaupið vannst á tímanum 23:39,7 og var það Obsaa Feda frá Miami (Ohio) háskólanum sem kom fyrstur í mark. Bæði kvenna og karlalið Eastern Michigan háskóla höfnuðu í þriðja sæti í liðakeppninni.
Trausti Þór Þorsteins keppti einnig á sínu svæðismeistaramóti í 8 km víðavangshlaupi. Meistaramót MAAC fór fram í Loudonville, New York og er þetta fyrsta sinn hann keppir fyrir nýja skólann sinn, Iona University. Trausti hafnaði í 32. sæti og kom í mark á tímanum 25:40,9. Karlalið Iona háskólans sigraði í liðakeppni karla og hefur nú unnið svæðismeistaratitilinn 32 ár í röð.
Hlynur með flottan tíma í hálfu maraþoni
Hlynur Andrésson (ÍR) hljóp í Arezzo hálfmaraþoninu í gær. Hann kom í mark á tímanum 1:03:35 en Íslandsmet hans í greininni er 1:02:47 sem hann setti árið 2020.
„Erfitt hlaup með mjög hröðu starti. Byrjaði fyrstu 5km á 14:29 hangandi í efstu mönnum frá Kenýu og hélt að ég gæti haldið forminu alla leið að markinu en 18 gráðu hitinn og sólinn með löngum kafla af brekkum virkilega tóku mikið úr mér síðustu 5km. Barðist samt alla leið að endalínunni og endaði sem fyrsti Evrópubúinn”
„Þetta er þriðja hálfmaraþonið í ár, en ég hljóp líka 1:03:05 í Berlín í vor. Þetta ár hefur ekki verið eins og 2021 þar sem það var nánast bæting og Íslandsmet í hverju hlaupi, en stundum er ekki nóg að vera í toppformi, þarft líka að geta hitt á réttu hlaupin. Búinn að fá góða reynslu í götuhlaupunum í ár, hlaupandi bestu tíma Íslendings í 5km og 10km götuhlaupi frá upphafi (14:14 í Bologna og 29:24 í Valencia) og veit að þessi reynsla mun vera verðmæt þegar ég hleyp mitt annað maraþon í Febrúar” skrifaði Hlynur í Facebook færslu sinni í dag.
Úrslit úr víðavangshlauparöð 2022
Víðavangshlauparöð Fætur toga og Framfara, hollvinafélags millivegalengda- og langhlaupara, lauk í gær þegar þriðja og síðasta hlaupið fór fram við Ræktunarstöð Reykjavíkur í Fossvogi. Þau Íris Dóra Snorradóttir (FH) og Arnar Pétursson (Breiðablik) luku hlauparöðina með fullt hús stiga en þau sigrðu í öllum hlaupunum og hlutu því 90 stig hvor.
Einnig var keppt í drengja og stúlknaflokki og voru það þau Helga Lilja Maack (ÍR) og Patrekur Ómar Haraldsson (Breiðablik) sem hlutu flest stig.
Heildarúrslit hlaupsins í gær má sjá hér.