Íslandsmet í 5000m hlaupi
Baldvin Þór Magnússon (UFA) bætti eigið Íslandsmet í 5000m hlaupi á braut þann 30. apríl. Hann hljóp á tímanum 13:20,34 mín. Fyrra met hans var 13:32,47 mín sem hann setti 15. apríl 2022.
“Þetta var bara mjög gott hlaup. Ég er stoltur af árangrinum og nú sé ég hvernig ég get skafið auka sekúndur af þessum tíma. Ég var mjög bjartsýnn fyrir þetta hlaup því æfingar hafa gengið vel. Þetta hlaup gefur mér góð stig fyrir Ólympíuleikana og á eftir að koma mér upp listann,” sagði Baldvin Þór Magnússon.
Hægt er að lesa nánar um það hér.
The Rodney Awards
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) var valin Athlete of the Year og Moment of the Year á the Rodney Awards en það er árleg verðlaunahátið sem haldin er í Virginia Commonwealth University.
Hægt að lesa nánar um the Rodney Awards hér.
“Það er mikill heiður að fá svona viðurkenningar. Ég var ekki að búast við að vinna bæði Athlete of the Year og Moment of the Year. Þetta eru verðlaun sem er kosið um svo mér þykir mjög vænt um þetta,” sagði Guðrún Karítas.
Bætir 15 ára gamalt mótsmet
Guðrún bætti 15 ára gamalt mótsmet á svæðismeistaramótinu um helgina er hún sigraði sleggjukastið með kasti upp á 67,46 m.
“Þetta gekk bara ágætlega miðað við aðstæður, hringurinn var fullur af vatni en bara fínt að ná inn þeim köstum sem ég gerði þrátt fyrir það. Það var markmiðið fyrir þetta ár að ná mótsmetum bæði í lóðinu og sleggjunni. Það tókst og ég er mjög sátt með það,” sagði Guðrún Karítas.
Úrslit mótsins má finna hér.
Bæting hjá Sindra Hrafni
Sindri Hrafn Guðmundsson (FH) keppti um helgina í spjótkasti á USATF Throws Festival í Drachman Stadium, University of Arizona. Hann lenti í öðru sæti með kasti uppá 81,21 m. sem er bæting um 30 sentímetra frá árinu 2018.
“Ég var vel stemmdur. Fór á þetta mót í fyrra og það gekk ágætlega svo ég var spenntur að kasta þarna aftur. Fyrstu 5 umferðirnar gengu ekki alveg nógu vel en ég náði að bæta mig í seinasta kasti sem var mjög gaman. Var alveg að búast við bætingu en maður veit svosem aldrei hvenær það gerist. Ég á slatta inni og tímabilið ennþá bara rétt að byrja þannig að ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu,” sagði Sindri Hrafn
Úrslit mótsins má finna hér.
RUB 23 hlaupaáskorun UFA
Þann 29. apríl fór fram RUB 23 hlaupaáskorun UFA. Þar kepptu fimm lið; Ungmennafélag Akureyrar, Héraðssambandið Hrafnaflóki, Ungmenna- og íþróttasamband austurlands, Íþróttsamband Íslands og Oddeyrarskóli. Á mótinu voru fjögur aldursflokkamet öldunga sett í 1000m hlaupi.
- Anna Berglind Pálmadóttir I 3:12,13 mín. I 45 – 49 ára
- Ágúst Bergur Kárason I 3:19,07 mín. I 50 – 54 ára
- Sigríður Björg Einarsdóttir I 4:03,57 mín. I 55 – 59 ára
- Sigurður Freyr Sigurðarson I 4:29,48 mín. I 55 – 59 ára
Úrslit mótsins má finna hér.
Næstu mót
Dagsetning | Mót | Staður |
---|---|---|
9. maí | Fjölnishlaup Olís | Grafarvogur |
11. maí | Úrvalsmót ÍR nr. 1 | Frjálsíþróttavöllur ÍR |
12. maí | Uppskerumót Umf. Heklu | Íþróttahúsið á Hellu |
18-19. maí | Norðurlandameistaramótið utanhúss | Svíþjóð |
23. maí | Vormót HSK | Selfossvöllur |