Vigdís Jónsdóttir bætti Íslandsmet sitt í sleggjukasti um tæpa þrjá metra!

Vigdís Jónsdóttir fylgdi á eftir góðum árangri sínum af Vetrarkastmóti Evrópu með stórbætingu á Íslandsmeti sínu í sleggjukasti á Góu móti FH í Kaplakrika. Vigdís kastaði 61,77m í öðru kasti og bætti þannig Íslandsmet sitt um tæpa þrjá metra. Fyrra met Vigdísar var 58,82m, sett í október á liðnu ári. Fyrstu fjögur köst Vigdísar voru yfir fyrra Íslandsmeti hennar en lítið varð úr síðustu tveimur köstunum vegna hressilegrar snjókomu í Hafnarfirði.

Vigdís stígur með metinu ákveðið inn á lista yfir helstu sleggjukastara Evrópu. Kastið er 13. besti árangur í greininni í Evrópu á árinu í hennar aldursflokki. Þá opnar kastið dyr fyrir Vigdísi því hún náði með því lágmarki á EM U23ja ára sem haldið verður í Bydgoszcz í Póllandi 13.-16. júlí í sumar.