Viðurkenningar fyrir afrek í millivegalengda- og langhlaupum 2023

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Viðurkenningar fyrir afrek í millivegalengda- og langhlaupum 2023

Framfarir, félag um eflingu millivegalengda- og langhlaupa, veitti á dögunum eftirtöldum hlaupurum viðurkenningar fyrir unnin afrek á árinu 2023.

Baldvin Þór Magnússon, UFA, er besti langhlaupari karla á árinu að mati Framfara fyrir einstaklega frábært ár 2023 en hann var einnig valinn bestur árið 2022. Hann var einnig valinn, millivegalengda- og langhlaupari ársins af Frjálsíþróttasambandi Íslands og hjá Hlaup.is. Baldvin Þór setti Íslandsmet utanhúss í 1500m; 3:40,36 mín og 3000m; 7:49,68 mín, og innanhúss í 5000m; 13:58,24 mín og mílu (1609m); 3:59,60 mín. Á götunni setti hann glæsilegt Íslandsmet í 10 km 28:51 mín og var þar með fyrsti Íslendingurinn til að fara vegalengdina undir 29 mínútum.

Baldvin náði lang besta árangri sem Íslendingur hefur náð á EM í víðavangshlaupum þegar hann varð 16. af 82 keppenda og atti þar kappi við bestu millivegalengda- og langhlaupara Evrópu. Baldvin er gríðarlega fjölhæfur hlaupari og hefur sett stefnuna á EM og Ólympíuleikana 2024 og snýst líf hans um það þessi misserin en hann býr og æfir á Englandi.

Andrea Kolbeinsdóttir, ÍR, er besti langhlaupari kvenna á árinu að mati Framfara annað árið í röð. Hún var kjörin íþróttakona Reykjavíkur annað árið í röð, hún varð fjórða í kjöri íþróttamanns ársins 2023, var kjörin kvenhlaupari ársins hjá Hlaup.is og lang-, götu- og utanvegahlaupari ársins hjá FRÍ. Andrea átti annað frábært ár 2023 en hún er einstaklega fjölhæfur hlaupari, jafnt á braut, götu og utanvega. Hún landaði 7 Íslandsmeistaratitlum, 5 og 10 km á götu, 1500m, 3000m og 5000m, sem og í hálfu maraþoni og heilu maraþoni í Reykjavíkurmaraþonið þar sem hún hljóp á 2:42:11 klst og var 33 mínútum á undan næstu konu. Auk þessa setti hún tvö Íslandsmet, annað í 5000m innanhúss 16:46,18 mín og hitt í 3000m hindrunarhlaupi 10:08,85 mín.

Í utanvegahlaupum bar hæst 35. sæti í 45 km hlaupi á HM í utanvegahlaupum en einnig stórkostlegur árangur í Laugavegshlaupinu annað árið í röð þar sem hún bætti ársgamalt brautarmet sitt um 10 mínútur.

Helga Lilja Maack (15 ára) ÍR, var valin efnilegasti hlaupari í flokki stúlkna skv. stigatöflu en hún bætti sig milli ára í 800m utanhúss úr 2:32,61 mín í 2:21,28 mín eða um 161 IAAF stig. Í 1500m utanhúss bætti hún sig úr 5:17,25 mín í 4:57,14 mín eða um 126 stig, í 1500m innahúss var bætingin 20 sek og 116 stig og að lokum náði hún 8 sek bætingu í 800m innanhúss þegar hún bætti sig úr 2:29,77 mín í 2:21,96 mín, eða um 105 IAAF stig.

Hilmar Ingi Bernharðsson (15 ára), ÍR, var valinn efnilegasti hlaupari í flokki pilta skv. stigatöflu en hann bætti sig milli ára í 800m innanhúss um 268 IAAF stig eða úr 2:21,56 mín 2:07,80 mín, í 800m utanhúss bætti hann sig úr 2:24,48 mín í 2:08,31 mín eða um 292 IAAF stig og að lokum í 1500m utanhúss úr 5:01,61 mín í 4:38,99 mín sem eru 174 stig. Frábær árangur það.

Helga Lilja og Hilmar Ingi eru ungir hlauparar (fædd 2008) sem keppa í
millivegalengdahlaupum.  Þau eru bæði í úrvalshóp FRÍ og stefna markvisst á stórmót unglinga í framtíðinni.

Framfarir óska þeim öllum til hamingju með liðið tímabil og góðs gengis á komandi misseri.

Um Framfarir

Í október árið 2002 komu saman nokkrir eldhugar og áhugamenn um millivegalengdir og langhlaup og stofnuðu hollvinafélagið Framfarir. Með stofnun félagsins vildu frumkvöðlarnir leggja sitt lóð á vogarskálar til frekari framfara í lengri hlaupavegalengdum á Íslandi. Síðan þá hafa Framfarir staðið fyrir árlegum viðurkenningum auk viðburða á við Víðavangshlaupaseríu Framfara og Brooks sem fram fer á hverju hausti, m.a. sem undirbúningur fyrir Víðavangshlaup Ísland og Norðurlandamót í víðavangshlaupum.

Markmið

Aðalmarkmið félagsins er að vekja athygli á millivegalengda- og langhlaupum bæði sem íþróttagrein og tómstundagamni. Efla unglingastarf og framfarir ungmenna og skapa samstöðu meðal hlaupara í lengri vegalengdum, jafnt þeirra sem stefna á alþjóðleg afrek og hinna sem stunda hlaup sér til skemmtunar og heilsubótar. Til frekari markmiða má telja að verðlauna hlaupara fyrir Íslandsmet í Ólympískum hlaupagreinum, annan góðan árangur og styðja við bakið á þeim fjárhagslega eins og félagið hefur bolmagn til. Bættur árangur á alþjóðlegum vettvangi er einnig mikið metnaðarmál Framfara. Efling fræðslustarfs og sameiginlegir fundir hlaupara og áhugafólks um hlaup er einnig á markmiðalista félagsins.

Einnig má telja að það gagnist öllum að skapa vettvang skoðanaskipta netleiðis og með sameiginlegum fræðslu- og spjallfundum, enda læri menn þannig hver af öðrum. Síðast en ekki síst má nefna eflingu á þátttöku allra óháð aldursflokki í almenningshlaupum en forvarnarstarf íþróttarinnar er þar hvað mest.

Stjórn Framfara

Fríða Rún Þórðardóttir, Gunnar Páll Jóakimsson, Jón Örlygsson og Sigurður Pétur Sigmundsson.

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Viðurkenningar fyrir afrek í millivegalengda- og langhlaupum 2023

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Dæmi um leit