Viðurkenningar 2020

Árið 2020 hefur verið óvenjulegt en það hefur ekki stoppað okkar fólk frá því að ná frábærum árangri. Þrautseigja og dugnaður er einkennandi fyrir framúrskarandi íþróttafólk og þrífst það í mótlæti eins og árið hefur verið. Vegna þjóðfélagsaðstæðna er ekki hægt að halda hefðbundna uppskeruhátíð og því þess í stað verður viðurkenningum ársins gerð hér góð skil í máli og myndum.

UFA hópur ársins

Hópur ársins er allt það frábæra fólk sem stendur á bakvið UFA. Þau sýndu mikinn dugnað í sumar þegar þau skipulögðu og héldu 94. Meistaramót Íslands með glæsibrag. Upphaflega átti mótið að fara fram á höfuðborgarsvæðinu en erfitt reyndist að finna löglegan keppnisvöll. UFA steig því inn með skömmum fyrirvara svo Meistaramótið gæti farið fram.

Langhlaupanefnd nefnd ársins

Nefnd ársins er langhlaupanefnd. Það fær hún fyrir frábært og óeigingjarnt starf í ár sem og fyrri ára. Langhlaup hafa verið í miklum vexti undanfarin ár og stunda fjölmargir það sér til skemmtunar. Einnig hafa afreksmenn verið að gera góða hluti í langhlaupum að undanförnu og margir náð góðum árangri á alþjóðavettvangi.

Pétur Guðmundsson þjálfari ársins

Þjálfari ársins er Pétur Guðmundsson. Hann þjálfar hjá ÍR þar sem hann þjálfar meðal annars kringlukastarann, Guðna Val Guðnason. Guðni hefur náð frábærum árangri undir handleiðslu Péturs og meðal annars keppt á Ólympíuleikunum. Pétur keppti sjálfur í kúluvarpi og á hann Íslandsmetið í þeirri grein bæði innan- og utanhúss.

Kristján valin piltur og Guðbjörg stúlka ársins 19 ára og yngri

Kristján Viggó Sigfinnsson, Ármanni var valinn piltur ársins 19 ára og yngri og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, stúlka ársins 19 ára og yngri. Kristján var valinn vegna árangurs síns í hástökki. Á MÍ innanhúss í mars þá stökk Kristján yfir 2,15 metra sem er nýtt piltamet 16-17 ára og tryggði sér um leið Íslandsmeistaratitilinn. Guðbjörg var valinn fyrir 200 metra hlaup sitt á RIG. Tími Guðbjargar í hlaupinu var 23,98 sekúndur sem er stúlknamet 18-19 og 20-22 ára.

Eva María með óvæntasta afrek ársins 19 ára og yngri

Óvæntasta afrek ársins 19 ára og yngri á Eva María Baldursdóttir, Selfossi. Á Hástökksmóti Selfoss stökk hún yfir 1,81 metra og bætti um leið stúlknamet 16-17 ára. Árangur Evu María var einnig sjöundi besti árangur utanhúss hjá 16-17 ára stúlkum í Evrópu.

Óskar fær hvatningarverðlaun unglingaþjálfara

Óskar Hlynsson þjálfari hjá Fjölni færi hvatningaverðlaun unglingaþjálfara. Óskar hefur haldið úti flottu starfi hjá Fjölni í fleiri ár og hefur myndað þar góðan hóp efnilegra frjálsíþróttaungmenna. Hann er mikil fyrirmynd, er hvetjandi og hefur verið duglegur við það að aðstoða FRÍ í ýmsum verkefnum.

Anna Sofia og Kristján með bestu afrek öldunga

Bestu afrek í öldungaflokki eiga Kristján Gissurarson og Anna Sofia Rappich. Kristján fyrir 60 metra hlaup á tímanum 9,18 sekúndur, hann keppir í flokki 65-69 ára. Anna Sofia einnig fyrir 60 metra hlaup þar sem hún kom í mark á 8,84 sekúndum, hún keppir í flokki 55-59 ára.

Götuhlauparar ársins eru Guðlaug Edda og Hlynur

Guðlaug Edda Hannesdóttir og Hlynur Andrésson voru valin götuhlauparar ársins. Guðlaug hljóp frábært hlaup á Íslandsmótinu í 10 km hlaupi. Hún kom í mark á 34:57 mínútum sem er næst besti tími íslenskrar konu frá upphafi. Hlynur átti mörg góð hlaup á árinu og setti meðal annars Íslandsmet í hálfu maraþoni. Metið setti hann á HM í hálfu maraþoni í Póllandi og var tími hans 1:02:47.

Rannveig og Örvar utanvegahlauparar ársins

Rannveig Oddsdóttir og Örvar Steingrímsson voru valin utanvegahlauparar ársins 2020. Rannveig sigraði Laugaveginn á fimm klukkustundum og 37 sekúndum og setti um leið brautarmet. Örvar sigraði 100 km Hengilshlaupið ásamt því að vinna Mýrdalshlaupið og varð annar Íslendinga í Laugavegshlaupinu.

Andrea og Hlynur langhlauparar ársins

ÍR-ingaranir Andrea Kolbeinsdóttir og Hlynur Andrésson eru langhlauparar ársins. Andrea hljóp frábærlega á HM í hálfu maraþoni þar sem hún kom í mark á tímanum 1:17:52. Það er næst besti tími íslenskrar konu frá upphafi og jafnframt stúlknamet 20-22 ára. Eins og áður hefur komið fram átti setti Hlynur íslandsmet í hálfu maraþoni. En auk þess bætti hann Íslandsmetið í 10.000 metra hlaupi braut. Það gerði hann á móti í Hollandi, tími hans í hlaupinu var 28:55,47 mínútur.

Guðni Valur með stigahæsta afrekið

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason, ÍR, átti stigahæsta afrek ársins samkvæmt stigatöflu World Athletics. Guðni Valur kastaði 69,35 metra í kringlukasti í ár sem var nýtt Íslandsmet. Það gaf honum 1232 stig sem er einnig stigahæsta afrek Íslendings frá upphafi.

Jónsbikarinn hlýtur Kolbeinn Höður

Jónsbikarinn er veittur fyrir besta spretthlaupsafrekið ár hvert. Kolbeinn Höður Gunnarsson fær þann heiður í ár fyrir Íslandsmet sitt í 200 metra hlaupi innanhúss. Kolbeinn kom í mark á tímanum 21,21 sekúndu. Metið setti hann á móti í Bandaríkjunum þar sem hann keppti fyrir The University of Memphis.

Hafdís og Kristján Viggó stökkvarar ársins

Hafdís Sigurðardóttir, UFA, og Kristján Viggó Sigfinnsson, Ármanni, eru stökkvarar ársins. Viðurkenninguna fær Hafdís fyrir árangur sinn í langstökki á Reykjavík International Games. Hafdís sigraði á mótinu með stökk upp á 6,37 metra sem var hennar lengsta stökk á árinu. Kristján Viggó bætti piltamet 16-17 ára á árinu þegar hann stökk yfir 2,15 metra í hástökki.

Hlynur og Ingibjörg millivegalengdahlauparar ársins

Hlynur Andrésson og Ingibjörg Sigurðardóttir, úr ÍR, voru valin millivegalengdahlauparar ársins. Þriðja Íslandsmet Hlyns á árinu var í 3.000 metra hlaupi. Það gerði hann í ágúst út í Hollandi á tímanum 8:02,60 mínútur. Viðurkenninguna fær Ingibjörg fyrir árangur sinn í 800 metra hlaupi á MÍ innanhúss. Hún hljóp vegalengdina á 2:16,87 mínútum og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.

Ásdís og Guðni Valur kastarar ársins

Ásdís Hjálmsdóttir, Ármanni, og Guðni Valur Guðnason, ÍR, eru kastarar ársins. Í júní kastaði Ásdís sitt fjórða lengsta kast á ferlinum og það fimmta lengsta í heiminum í ár. Hún gerði það á Bottn­arydskastet-mót­inu út í Svíþjóð. Hún kastaði 62,66 metra sem var bæði móts- og vallarmet. Eins og áður hefur komið fram þá bætti Guðni Valur Íslandsmetið í kringlukasti og var það fimmta lengsta kast ársins í heiminum.

Guðbjörg Jóna og Kolbeinn Höður spretthlauparar ársins

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR og Kolbeinn Höður Gunnarsson, FH, eru spretthlauparar ársins. Þau áttu bæði frábær 200 metra hlaup innanhúss þar sem Kolbeinn bætti eigið Íslandsmet og Guðbjörg eigið stúlknamet 18-19 ára og 20-22 ára.

Fjölþrautarfólk ársins eru Ísak Óli og María Rún

Ísak Óli Traustason, UMSS, og María Rún Gunnlaugsdóttir, FH, eru fjölþrautarfólk ársins. Viðurkenninguna fá þau fyrir árangur sinn á MÍ í fjölþrautum innanhúss. Ísak Óli hlaut 5336 stig í sjöþraut og María Rún 3965 stig í fimmtarþraut.

Baldvin Þór með óvæntasta afrekið

Óvæntasta afrekið var piltamet Baldvins Þórs Magnússonar í 3.000 metra hlaupi innanhúss. Metið setti hann á móti í Bandaríkjunum þar sem hann keppir fyrir Eastern Michigan University, tími Baldvins var 8:03,28 mínútur. Metið hafði staðið í 13 ár og var það Kári Steinn Karlsson sem átti það.

Hilmar og Vigdís frjálsíþróttakraftur ársins

Titilinn frjálsíþróttakraftur ársins er veittur þeim sem hafa skarað framúr og verið áberandi í umræðunni um frjálsar íþróttir á Íslandi. Sleggjukastararnir úr FH, Hilmar Örn Jónsson og Vigdís Jónsdóttir hafa svo sannarlega verið það á þessu ári. Hilmar bætti Íslandsmet sitt 22. ágúst og svo aftur fimm dögum seinna. Alls bætti Hilmar met sitt frá árinu 2019 um tæpa tvo metra sem er magnaður árangur. 77,10 metra kast Hilmars var tíundi lengsta kast ársins í heiminum. Vigdís náði Íslandsmeti sínu til baka í byrjun júní. Hún bætti það svo fjórum sinnum í viðbót og kastaði lengst 63,44 metra. Hér horfa sjá kast þeirra beggja og viðtal við þau frá RÚV.

Ásdís Hjálmsdóttir frjálsíþróttakona ársins

Frjálsíþróttakona ársins er spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir. Ásdís hafði gefið það út fyrir tímabilið að það yrði hennar síðasta á ferlinum. Síðasta mót Ásdísar var Castorama mótið í Svíþjóð þar sem hún keppti í kúluvarpi, spjótkasti, kringlukasti og sleggjukasti. Lengsta kast Ásdísar í spjótkasti í ár var 62,66 metrar og hennar fjórða lengsta frá upphafi. Íslandsmet Ásdísar er 63,43 metrar og er frá árinu 2017. Ásdís hefur verið ein sú fremsta í heiminum í rúman áratug og hefur hún keppt á þrennum Ólympíuleikum, 2008, 2012 og 2016. Ásdís endar einnig ferilinn sem ein sú fremsta í heiminum en lengsta kast hennar í ár er jafnframt þrettánda lengsta kast ársins á heimsvísu.

Guðni Valur frjálsíþróttakarl ársins

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason er frjálsíþróttakarl ársins. Guðni var að glíma við meiðsli stóra hluta ársins og gat því ekki beitt sér að fullu. Undir lok sumars var Guðni farinn að kasta aftur yfir 60 metra og í september átti hann risastórt kast. Þá kastaði hann kringlunni 69,35 metra og bætti sinn besta árangur frá 2018 um tæpa fjóra metra. Guðni bætti einnig Íslandsmetið sem staðið hafði í 31 ára og átti fimmta lengsta kast heims á árinu. Guðni er því afar líklegur á Ólympíuleikana sem eru á dagskrá í Tókýó 2021. Til þess að komast þangað þarf hann að kasta yfir lágmarkinu, sem er 66 metrar, en tímabilið til þess opnaði aftur 1. desember og er opið til 31. maí 2021.