Víðavangshlaup Íslands fer fram í haust

Í vor var tekin sú ákvörðun að færa Víðavangshlaup Íslands frá vori fram til hausts. Rökin sem færð eru fyrir þessum flutningi eru að víðavangshlaup flokkist frekar sem haust-/vetrargrein jafnt á Norðurlandunum sem og á heimsvísu. Önnur rök til stuðnings flutningnum er fyrirhugað Norðurlandamót í Víðavangshlaupum á Íslandi árið 2018 sem fram fer í byrjun vetrar og að gott sé að tengja víðavangstímabilið hér þeim viðburði.

Víðavangshlaup Íslands mun fara fram laugardaginn 28. október nk. í Laugardalnum í Reykjavík sem er tveimur vikum fyrir Norðurlandamótið í víðavangshlaupum og verður hlaupið notað til að leggja síðustu hönd á val eins keppanda af hvoru kyni í fullorðinsflokki og eins í ungmennaflokki.

Framfarahlaupin sem haldin hafa verið undanfarin ár, munu einnig fara fram nú í ár og verður Víðavanghlaup Íslands næstsíðasta hlaupið í hlaupaseríunni.

Dagsetningar Framfarahlaupa 2017 verða þessar:

  • 30. september
  • 14. október
  • 28. október – Víðavanghlaup Íslands
  • 4. nóvember