Vésteinn Hafsteinsson frjálsíþróttaþjálfari ársins í Svíþjóð

Kastþjálfarinn og fyrrverandi kringlukastarinn Vésteinn Hafsteinsson var í gær valinn frjálsíþróttaþjálfari ársins af sænska frjálsíþróttasambandinu.

Vésteinn hefur verið mjög farsæll í sínu starfi sem kringlukastþjálfari. Hann þjálfaði um árabil Heims-og Ólympíumeistarann, Gerd Kanter, en hann á þriðja lengsta kast sögunnar.

Á síðustu árum hefur Vésteinn þjálfað Svíann Daniel Ståhl, ásamt því að þjálfa fleiri góða kastara. Í júní á þessu ári bætti Ståhl 33 ára gamalt sænskt met í kringlukasti er hann kastaði 71,29 m á móti í Sollentuna. Þetta kast hjá Ståhl er það lengsta í heiminum í fjögur ár. Ståhl vann til silfurverðlauna á Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í London á þessu ári með kasti uppá 69,19 m.

Vésteinn var á árum áður mikill afreksmaður í kringlukasti. Hann keppti á fernum Ólympíuleikum, fimm Heimsmeistaramótum og tveimur Evrópumeistaramótum. Íslandsmetið í greininni er í hans eigu en það er 67,64 m frá árinu 1989.

Viðtal við Véstein má sjá hér.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Vésteini innilega til hamingju með viðurkenninguna!