Vel mætt á spretthlaupsnámskeið Ara Braga

Vel var mætt á námskeið sem spretthlauparinn Ari Bragi Kárason hélt í Hafnarfirði gær. Þar fór Ari Bragi yfir það helsta sem hann lærði á dvöl sinni í Arizona í Bandaríkjunum þar sem hann æfði í ALTIS félaginu með mörgum af fremstu spretthlaupurum heims í 6 vikur. Þjálfarar og iðkendur úr hinum ýmsu félögum soguðu í sig upplýsingarnar og fengu vitneskju um það hvernig bestu spretthlauparar heims æfa frá degi til dags.

Mikilvægt er að auka víðsýni og styrkja samheldnina meðal íþróttafólks og þjálfara hér á landi. Allir græða á því að bera saman mismunandi þjálfunaraðferðir og rökræða um hvað virkar best. Ari Bragi og FRÍ hvetur þjálfara til þess að hittast og ræða saman um þjálfunaraðferðir en oft mynduðust skemmtilegar rökræður á námskeiðinu í gær.

Frjálsíþróttasamband Íslands þakkar Ara Braga fyrir virkilega gagnlegt og skemmtilegt námskeið en þetta framtak hans hafði án efa bæði stykjandi og eflandi áhrif á frjálsíþróttahreyfinguna á Íslandi.