Valið á Norðurlandamótið í víðavangshlaupum

Valið hefur verið hvaða fjórir íslenskir keppendur munu keppa fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum sem fer fram í Middelfart í Danmörku þann 11. nóvember nk.

Keppt er í fjórum flokkum á mótinu:

Í flokki U20 pilta, flokki U20 stúlkna og í karla-og kvennaflokki.

  1. Baldvin Þór Magnússon hefur verið að hlaupa gríðarlega vel að undanförnu. Hann sigraði í 10 km hlaupinu í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í lok ágúst er hann hljóp á tímanum 32:50 mínútum. Baldvin er búsettur í Bretlandi og hefur hann verið að keppa talvert í víðavangshlaupum og staðið sig mjög vel. Baldin keppti um helgina í Hull Parkrun, sem er 5 km götuhlaup, og hljóp hann á tímanum 15:54 mínútum.
  2. Andrea Kolbeinsdóttir ÍR er þrátt fyrir ungan aldur ein besta hlaupakona landsins. Hún er margfaldur Íslandsmeistari bæði innan-og utanhúss í hinum ýmsu vegalengdum. Fyrir rúmri viku síðan stórbætti hún árangur sinn er hún hljóp hálft maraþon í Haustmaraþoninu á tímanum 1:22:34 mínútum og sigraði í hlaupinu. Andrea bar sigur úr býtum í Víðavangshlaupi Íslands um helgina í flokki 18-19 ára stúlkna.
  3. Arnar Pétursson ÍR hefur sannað sig á undanförnum árum sem besti langhlaupari landsins. Hann hefur verið gjörsamlega óstöðvandi í ár og tekið þátt í nánast öllum götu-og utanvegahlaupum sem í boði eru hér á landi og sigrað í þeim öllum. Þá náði hann besta tíma sem Íslendingur sem hefur hlaupið á hér á landi í maraþoni er hann kom fyrstur í mark í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á tímanum 2:28:17 mínútum. Arnar hlaut níunda Íslandsmeistaratitil sinn á árinu er hann vann yfirburðasigur í karlaflokki í Víðavangshlaupi Íslands á laugardaginn.
  4. Helga Guðný Elíasdóttir Fjölni hefur verið að bæta sig jafnt og þétt á árinu. Hún náði t.a.m. sínum besta árangri í 5km götuhlaupi í vor er hún hafnaði í þriðja sæti í Víðavangshlaupi ÍR á tímanum 19:11 mínútum. Þá bætti hún sig í 800m, 1500m, 3000m, 3000m hindrunarhlaupi og 5000m utanhúss í sumar. Helga bar sigur úr býtum í kvennaflokki í Víðavangshlaupi Íslands á laugardaginn.