Valdimar og Mímir með aldursflokkamet í kringlukasti

FH-ingarnir Valdimar Hjalti Erlendsson og Mímir Sigurðsson bættu báðir aldursflokkamet í kringlukasti. Valdimar bætti metið í flokki pilta 16-17 ára þegar hann kastaði 58,38 metra. Fyrra metið var 58,20 metrar og setti Hilmar Jónsson það árið 2013. Mímir bætti eigið met í flokki pilta 18-19 ára. Hann kastaði 54,93 metra og bætti met sitt frá því í fyrra um hálfan meter.

Valdimar er frekar nýr í íþróttinni en hefur samt sem áður náð góðum árangri. Hann keppti meðal annars á Evrópumóti 16-17 ára í sumar og á Ólympíuleikum ungmenna. Hann hefur ekki langt að sækja hæfileikana því faðir hans, Erlendur Valdimarsson, er næstbesti kringlukastari Íslendinga frá upphafi en hann kastaði kringlunni lengst 64,32 metra árið 1974.

Mímir Sigurðsson hefur einnig verið að gera góða hluti. Hann hefur þónokkrum sinnum orðið Íslandsmeistari í sínum aldursflokki og hefur keppt á sterkum mótum erlendis eins og Bauhaus Junioren Gala og Norðurlandamóti 19 ára og yngri.