Úthlutun úr afrekssjóði FRÍ

Úthlutun úr afrekssjóði FRÍ fer fram föstudaginn 10. maí klukkan 12:00 í sal C í húsnæði ÍSÍ.

Meginhlutverk afrekssjóðs FRÍ er að búa afreksfólki og afreksefnum í frjálsíþróttum fjárhagslega og faglega umgjörð til að hámarka árangur sinn.
Styrkveitingar skulu hafa það að meginmarkmiði að styðja við afreksfólk og afreksefni vegna undirbúnings og verkefna, jafnt á fjárhagslegan hátt sem og með aðgengi að ráðgjöf og þjónustu sem snýr að umhverfi afreksíþrótta sem skilgreind eru í afreksstefnu og aðgerðaráætlun FRÍ.

Afrekssjóður FRÍ úthlutar nú 14 milljónum króna en sjóðurinn byggir á ýmsum tekjum sambandsins, þar með talið þeim sem koma í gegnum Afrekssjóð ÍSÍ. FRÍ nýtur þess að um er að ræða stóraukið framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ sem gefur sambandinu tækifæri á að styðja enn frekar með beinum hætti við afreksfólkið, bæði með styrkjum vegna landsliðsverkefna og vegna verkefna einstaklinga. 

Í stjórn afrekssjóðs FRÍ eru afreksstjóri FRÍ og stjórn FRÍ. Að auki er fagteymi FRÍ hluti af umgjörð sambandsins í afreksmálum og ráðgefandi sé þess óskað. Á árinu eru fjölmörg stórmót á dagskrá og stærsta mót fullorðinna er Heimsmeistaramótið í Katar í lok september. Afreksefni FRÍ verða svo á ferðinni á Evrópumeistaramóti U23 sem fram fer í Gävle Svíþjóð um miðjan júlí og svo er Evrópumeistaramóti U20 viku seinna í Borås, Svíþjóð.