Utanhúss tímabilið er hafið

Vormót HSK fór fram á Selfossi í kvöld en þetta er mót sem íþrottamenn gjarnan kjósa til þess að opna tímabilið sitt. Mikill vindur var á vellinum í dag sem gerði mörgum erfitt fyrir en þeir sem fengu vindinn í bakið högnuðust vel og náðu frábærum árangri. 

Það féll eitt aldursflokkamet á mótinu en það var FH-ingurinn Arndís Diljá Óskarsdóttir sem bætti met Ásgerðar Jönu Ágústsdóttur í spjótkasti (500g) í flokki 16-17 ára stúlkna. Hún kastaði lengst 45,93 metra og bætti þar með átta ára gamla metið um 49 sentímetra.

Í 100 metra hlaupinu hjá körlunum náðust frábærir tímar þar sem meðvindur var mikill. ÍR-ingurinn Bergur Sigurlinni Sigurðsson sigraði á tímanum 10,88 sekúndum í meðvindi upp á +5,3 m/s. Kristófer Þorgrímsson úr FH kom annar í mark á tímanum 11,06 sekúndum og Ármenningarnir Óliver Máni Samúelsson og Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson deildu þriðja til fjórða sætinu á tímanum 11,14 sekúndum og voru þeir þrír sömuleiðis með +5,3 m/s vind í bakið.

Í 200 metra hlaupi var það Bjarni Anton Theódórsson úr Fjölni sem sigraði á tímanum 22,64 sekúndur (+6,6 m/s).

Það bætti örlítið í vindinn þegar konurnar hlupu 100 metra hlaup sitt og varð það Íslandsmethafinn í greininni sem  sigraði á tímanum 11,59 sekúndum sem er þremur brotum frá Íslandsmeti hennar en vindur mældist + 5,7 m/s. Það var Blikinn Birna Kristín Kristjánsdóttir sem var önnur á tímanum 12,15 (+5,7 m/s) sekúndum og FH-ingurinn Ísold Sævarsdóttir þriðja á tímanum 12,50 sekúndum (+5,7 m/s).

Guðbjörg sigraði einnig 200 metra hlaupið og kom í mark á 24,62 sekúndum (+3,6 m/s).

Irma Gunnarsdóttir heldur áfram að ná stökkum yfir sex metra en hún stökk lengst 6,14 metra (+3,2 m/s). Hún á best 5,92 metra utanhúss og verður því spennandi að sjá hana stökkva með löglegan vind. Í öðru sæti var Ísold Sævarsdóttir úr FH með stökk upp á 5,61 meter (+4,5 m/s) og ÍR-ingurinn Hildigunnur Þórarinsdóttir í því þriðja með 5,60 metra (+ 6,9 m/s).

Íslandsmethafinn í sleggjukasti kvenna, Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR, sigraði sína grein með kast upp á 61,19 metra. Í öðru sæti var liðs- og æfingarfélaginn hennar Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir með kast upp á 52,26 metra. Það var svo Gréta Sóley Arngrímsdóttir úr UMF Borgarfirði Eystri með kast upp á 36,15 metra. 

Úrslit mótsins má finna hér.