Úrvalshópur FRÍ 15-19 ára – æfingabúðir og árangursviðmið

Um helgina fóru fram æfingabúðir Úrvalshóps FRÍ 15-19 ára í Kaplakrika í Hafnarfirði. Frábær þátttaka var í æfingabúðunum en 65 af 88 krökkum mættu og hvorki meira né minna en 12 þjálfarar gáfu af sínum dýrmæta tíma til að skapa skemmtilega helgi fyrir þessa ungu og efnilegu krakka. Unglinganefnd og FRÍ þakkar þjálfurunum vel fyrir en þeir voru Teodór Karlsson Fjölni, Óðinn Björn Þorsteinsson ÍR, Bergur Ingi Pétursson ÍR, Ragnheiður Ólafsdóttir FH, Bogi Eggertsson FH, Stefán Ragnar Jónsson Breiðabliki, Alberto Borges Breiðabliki, Gunnar Páll Jóakimsson ÍR, Þurý Ingvarsdóttir HSK/Selfossi, Félix E. Woelflin FH, Einar Þór Einarsson FH og Matthías Már Heiðarsson Fjölni. Hægt er að skoða myndir frá deginum á facebook síðu unglinganefndar https://www.facebook.com/unglingarifrjalsum

Nýr hópur verður birtur í október 2018. Hægt er að nálgast þau árangursviðmið sem gilda í Úrvalshóp FRÍ 15-19 ára fyrir tímabilið 1.maí 2018 til 30.sept 2018 með því að smella hér.

Þá urðu einnig breytingar í unglinganefnd FRÍ um helgina en Súsanna Helgadóttir er tekin við sem formaður nefndarinnar af Aðalheiði Maríu Vigfúsdóttir. Í stað Aðalheiðar kemur inn í nefndina Linda Björk Lárusdóttir fyrrum landsliðskona með margra ára reynslu af þjálfun yngri flokka hjá Breiðabliki.