Úrslit frá Halle – Ásdís og Bergur bæði í 8. sæti

Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni og Bergur Ingi Pétursson FH urðu bæði í 8. sæti á alþjóðlega kastmótinu í Halle í Þýskalandi í dag.
Ásdís kastaði spjótinu lengst 56,13 metra og Bergur Ingi kastaði sleggjunni lengst 73,00 metra.
Christine Obergföll Þýskalandi sigraði spjótkastkeppnina með lengsta kasti ársins í heiminum í ár, 68,40m. Í öðru sæti varð Steffi Nerius Þýskalandi með þriðja lengsta kast ársins, 63,72 metra og ólympíumeistarinn Mariya Abakumova frá Rússlandi varð þriðja með 61,69 metra, en hún á næstlengsta kast ársins á þessu ári. Ásdís er sem stendur í 12. sæti heimslistans.
Kastsería Ásdísar var: 51,96-54,60-52,35-56,13-55,87-56,12.
 
Bergur Ingi keppti í dag á sínu fyrsta móti síðan 15. mars og lofar árangur hans í dag mjög góðu fyrir sumarið, en hann var aðeins 1,48 metra frá Íslandsmeti sínu í dag og kastsería hans var mjög jöfn og góð: 72,24-73,00-óg-70,23-72,84-68,56.
Krisztian Pars frá Ungverjalandi vann sleggjukastið öðru lengsta kasti ársins í heiminum í ár, 80,82 metrum, en hann á sjálfur lengsta kast ársins. Bergur Ingi er í 39. sæti á heimslistanum í sleggjukasti með þennan árangur.
 
Óðinn Björn Þorsteinsson FH varð í 14. sæti í kúluvarpi, varpaði legnst 17,44 metra. Þá varð Örn Davíðsson FH í 12. sæti í spjótkasti í unglingaflokki 19 ára og yngri, kastaði lengst 57,97 metra.

FRÍ Author