Úr fimleikum í stangarstökk

Karen Sif Ársælsdóttir æfir stangarstökk með Breiðablik. Hún er ein sú besta á landinu og er ríkjandi Bikar- og Íslandsmeistari innanhúss í greininni. Hún átti frábært innanhústímabil og stefnir á áframhaldandi bætingar í sumar.

Úr fimleikum í stangarstökk

Karen Sif byrjaði að æfa frjálsar íþróttir undir lok árs 2015 og keppti á sínu fyrsta móti í upphafi 2016. Þá var hún búinn að æfa fimleika í tíu ár en ákvað að prófa frjálsar íþróttir. Hún fór beint í stangarstökkið þar sem hún hefur náð góðum árangri.

Bæting um 38 sentimetra á tímabilinu

„Síðasta keppnistímabil gekk mjög vel og ég bætti mig nánast á hverju móti. Ég æfði mjög stíft yfir allt keppnistímabilið og æfingarnar voru stundum mjög langar og krefjandi. Ég tók mörg stærri skref en ég hefði gert áður á æfingum sem kom sér til skila þegar það kom að keppni,“ segir Karen um innanhústímabilið. Hún afrekaði það að verða bæði Bikar- og Íslandsmeistari og í heildina bætti hún sig 38 sentimetra. Hún segir að eftirminnilegasta atvikið hafi verið Bikarkeppnin. Þar þríbætti hún sig og stökk á endanum yfir 3,53 metra. 

Vonast eftir frekari bætingum

Fyrir sumarið hafði hún sett sér það markmið að ná lágmarki inn á NM U23 en því hefur verið aflýst. Svo hún mun einbeita sér að tímabilinu hér heima og vonast eftir því að bæta sig enn frekar og toppa síðasta tímabil.

Aðspurð um rútínu vikuna fyrir mót segist hún létta á æfingum og taka styttri æfingar. Hún reynir að borða hollari mat yfir vikuna til þess að verða í sínu besta standi á keppnisdegi. Hún einblínir einnig á sutta spretti og stangarstökks tækni. 

„Þegar kemur að keppnisdegi finnst mér lang mikilvægast að vera búin að sofa nóg, að minnsta kosti átta tíma. Daginn áður gerir ég líka allt tilbúið sem ég þarf að hafa með mér. Ég fæ mér alltaf eggjabrauð með sírópi fyrir mót sem fyllir magann og gerir mig ekki svanga. Ég reyni síðan að mæta stundvíslega á mótið eða rúmlega 90 mínútum fyrir keppni.“

Mikilvægt að vera þolinmóður

Karen segir að í stangarstökki sé milvægt að vera þolinmóður. Það komi allt með tíma og nauðsynlegt sé að trúa á sjálfan sig. Stangarstökk krefst mikillar tækni og segir hún það hafa hjálpað sér að skoða myndbönd og reyna að sjá fyrir sér stökkið. „Ef maður er duglegur að mæta á æfingar og styrkja sig ætti það að skila sér á endanum.“