Unglingametið í 1000m boðhl. féll í Bikarkeppni FRÍ

Nú er komið á daginn að eitt aldursflokkamet fékk í 43. Bikarkeppni FRÍ á dögunum, en það var sveit ÍR sem bætti 55 ára gamalt unglingamet (19-20 ára) í 1000m boðhlaupi. Sveit ÍR skipuðu þrír 18 ára drengir og einn 19 ára, en þetta voru þeir Heimir Þórisson, Brynjar Gunnarsson, Börkur Smári Kristinsson og Einar Daði Lárusson.
Sveitin kom í mark í 3. sæti á 2:00,11 mín og bætti þar með met sveitar Ármanns frá árinu 1953, en þá sveit skipuðu engu minni kappar en Þorvaldur Búason, Hilmar Þorbjörnsson, Þórir Þorsteinsson og Heiðar Jónsson.
 
Elsta met sem ennþá stendur í metaskrá Frjálsíþróttasambandsins er frá árinu 1950 og einnig í 1000m boðhlaupi, en þá hljóp landssveit Íslands á 1:55,0 mín á Bislet leikvanginum í Osló. Þá sveit skipuðu þeir Finnbjörn Þorvaldsson, Haukur Clausen, Ásmundur Bjarnason og Guðmundur Lárusson. Þessir kappar voru þá á heimleið eftir frægðarför á Evrópumeistaramótið í Brussel, sem fram fór skömmu áður. Örn Clausen var ekki í þessari sveit vegna þess að hann hljóp með blandaðri sveit hlauparar frá ýmsum löndum, en sú sveit setti óstaðfest heimsmet í þessu sama hlaupi.
 
Síðustu áratugi hefur aðeins verið keppt í þessari skemmtilegu boðhlaupsgrein í Bikarkeppni FRÍ og á Landsmótum UMFÍ. Í landskeppnum og á stórmótum er alltaf keppt í 4x100m og 4x400m boðhlaupum.

FRÍ Author