Forkeppni NCAA hefst í dag

Forkeppnin fyrir Bandaríska Háskólameistaramótið fer fram þessa vikuna og eru sex Íslendingar skráðir til leiks. Þau þurfa að ná sæti meðal tólf efstu til þess að öðlast þáttökurétt á Bandaríska Háskólameistaramótinu sem fer fram dagana 9.-12. júní í Eugene í Oregon fylki. Spjótakastararnir frá Mississippi State háskóla, Dagbjartur Daði Jónsson og Sindri Hrafn Guðmundsson hefja keppni í dag í Jacksonville, Florida klukkan 17:30 að íslenskum tíma. Dagbjartur og Sindri eru með tvö lengstu köstin í NCAA. Dagbjartur er búinn að kasta lengst 78,66 metra í ár en hann gerði það á svæðismeistaramóti SEC fyrir tveimur vikum síðan og bætti þar með sinn persónlega árangur. Sindri hefur kastað lengst 77,77 metra í ár en hann á best 80,91 metra frá 2018.

Á fimmtudag keppa þær Vigdís Jónsdóttir í sleggjukasti og Erna Sóley Gunnarsdóttir í kúluvarpi. Vigdís keppir fyrir Memphis háskóla og er hún búin að kasta lengst 63,43 sem er sentímetrar frá hennar besta árangri. Erna Sóley er eini Íslendingurinn sem keppir ekki í austur-undankeppninni en hún keppir í Bryan-College Station, Texas í vestur-undankeppninni. Erna á bæði Íslandsmetið innan- og utanhúss í kúluvarpi kvenna og komin með lágmark á EM U23. Tíu daga Íslandsmet hennar mældist 16,77 metra og keppir hún fyrir Rice University háskóla. Vigdís keppir klukkan 17:30 og Erna klukkan 23:00 að íslenskum tíma.

Á föstudag keppir Baldvin Þór Magnússon í 5000 metra hlaupi. Baldvin keppir fyrir Eastern Michigan háskóla og er í stórkostlegu formi. Hann er nú þegar búinn að bæta Íslandsmet í 3000 metra hlaupi innanhúss, 1500 og 5000 metra hlaupi utanhúss. Íslandsmet hans í 5000 metra hlaupi er 13:45,66 og mun hann hefja keppni klukkan 00:30 (29.05) að íslenskum tíma. 

Íslandsmethafinn í kringlukasti kvenna, Thelma Lind Kristjánsdóttir, hefur keppni klukkan 17:30 á laugardag. Thelma er búin að kasta 53,62 metra lengst í ár sem er annað lengsta kast hennar á ferlinum. Íslandsmet hennar í greininni er 54,69 metrar og keppir hún fyrir Virginia háskóla.

Live Results East Preliminary

Live stream East Preliminary

Live Results West Preliminary