Um 700 krakkar tóku þátt í Breiðholtsmótinu í frjálsum

Breiðholtsmótið í frjálsum íþróttum er haldið fyrir nemendur í 4. – 7. bekk í grunnskólunum Breiðholts, það er Breiðholtsskóla, Fellaskóla, Hólabrekkuskóla, Seljaskóla og Ölduselsskóla.
 
Mótið er einstaklingskeppni og liðakeppni á milli skóla auk þess sem það er vettvangur fyrir þá sem ekki geta eða vilja keppa, þeir vinna þá í staðinn námstengd verkefni á mótinu til að mynda útgáfumál, fréttaflutning og úrslitavinnslu.
 
Nú eru um 700 keppendur skráðir til leiks en keppt er í 60m spretthlaupi, langstökki, kúluvarpi og 600m hlaupi að ógleymdum boðhlaupum þar sem 5 hlauparar skipa hvert lið.
 
Frjálsíþróttadeild ÍR er framkvæmdaraðili mótsins í dyggu samstarfi við Háskólann í Reykjavík og grunnskólana í Breiðholtinu. Nemendur í Háskólanum í Reykjavík eru hluti af starfsmönnum mótsins en einnig leggur ÍR fram fjölda einstaklinga á móti nemendum og starfsfólki skólanna. Þannig er þetta skemmtilegt og gefandi samstarfsverkefni margra aðila.
 
Einnig styðja Íþróttabandalag Reykjavíkur (IBR), Hverfisráð og Þjónustumiðstöð Breiðholts og fyrirtækin í hverfinu dyggilega við framkvæmdina.
Breiðholtsmótinu er ætlað að gefa sem flestum tækifæri til þess að kynnast frjálsum íþróttum á jákvæðan hátt og taka um leið þátt í skemmtilegum leik og keppni.
 
Keppnin fer fram í Laugardalshöllinni eftirtalda daga:
15. október kl. 9-12 þegar 5. bekkur keppir
20. október kl. 13-16 þegar 7. bekkur keppir
21. október kl. 13-16 þegar 4. bekkur keppir
22. október kl. 13-16 þegar 6. bekkur keppir
 
Í dag fór fram síðasti keppnisdagur mótsins af fjórum í Laugardalshöllinni og verða úrslit keppninnar færð inní mótaforrit FRÍ hér á síðunni. Þetta er sannarlega eftirtektarvert framtak hjá frjálsíþróttadeild ÍR og gæti orðið fyrirmynd fyrir sambærilega kynningu annara frjálsíþróttadeilda á íþróttinni í sínum sveitarfélögum/félagssvæðum.
 
Sjá nánar: www.irfrjalsar.com og www.mot.fri.is
 

FRÍ Author