Reglugerð um Afrekssjóð FRÍ

1. GREIN – NAFN SJÓÐSINS OG HEIMILI 
Sjóðurinn heitir Afrekssjóður Frjálsíþróttasambands Íslands, hér eftir Afrekssjóður FRÍ, er til heimilis að  Engjavegi 6, 104 Reykjavík.  

2. GREIN – MARKMIÐ SJÓÐSINS 
Stjórn Afrekssjóðs FRÍ starfar eftir þeirri meginstefnu sem mótuð er í Afreksstefnu FRÍ.  
Meginhlutverk Afrekssjóðs FRÍ er að búa afreksfólki og afreksefnum í frjálsíþróttum fjárhagslega og faglega umgjörð til að hámarka árangur sinn. 
Styrkveitingar skulu hafa það að meginmarkmiði að styðja við afreksfólk og afreksefni vegna undirbúnings og verkefna, jafnt á fjárhagslegan hátt sem og með aðgengi að ráðgjöf og þjónustu sem snýr að umhverfi afreksíþrótta sem skilgreind eru í afreksstefnu og aðgerðaráætlun FRÍ. 

3. GREIN – VERKEFNI SJÓÐSINS 
Afreksstjóri FRÍ mótar þær áherslur sem liggja að baki styrkveitingum og hvernig ráðstöfunarfé sjóðsins skuli nýtt hverju sinni og þann úthlutunarramma sem unnið skal eftir. 
Afreksstjóri geri tillögur um úthlutunarreglur og úthlutun styrkja sem skulu lagðar fyrir stjórn FRÍ til endanlegrar staðfestingar og samþykkis.  

4. GREIN – TEKJUR SJÓÐSINS 
Afrekssjóður FRÍ nýtur framlags úr Afrekssjóði ÍSÍ, til FRÍ. 

5. GREIN – STJÓRN SJÓÐSINS 
Í stjórn Afrekssjóðs FRÍ eru Afreksstjóri FRÍ og stjórn FRÍ. Hafa þessir einstaklingar atkvæðisrétt á stjórnarfundum. Séu atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns úrslitum. 

6. GREIN – HÆFI STJÓRNARMANNA 
Stjórnarmenn Afrekssjóðs FRÍ eru ekki fulltrúar félaga eða einstakra íþróttamanna heldur skulu þeir starfa í þágu allra innan raða FRÍ. Þeir skulu vera sjálfstæðir í störfum sínum og óháðir. Stjórnarmenn gæta sjálfir að hæfi sínu við störf sín.  

7. GREIN – STJÓRNARFUNDIR OG BOÐUN ÞEIRRA 
Stjórn Afrekssjóðs FRÍ skal halda fundi eftir því sem við á en jafnan skulu fundir haldnir á þriggja mánaða fresti. Afreksstjóri sér um boðun funda og er stjórn ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund.  

8. GREIN – REIKNINGAR SJÓÐSINS OG ENDURSKOÐUN 
Reikningsár Afrekssjóðs FRÍ er almanaksárið. 
Endurskoðun reikninga á sér stað samhliða reikningum FRÍ og fylgir þeim reglum sem gilda um endurskoðun á reikningum FRÍ. 

9. GREIN – REKSTUR SJÓÐSINS 
Rekstur sjóðsins skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé hans sem er háð úthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ. 
Almenn umsýsla með sjóðnum s.s. að taka á móti umsóknum og öðrum erindum, sjá um reikningshald, fjárvörslu, greiðslur og skjalavörslu auk þess að birta upplýsingar um forsendur sjóðsins og úthlutanir er hlutverk Afreksstjóra FRÍ. 
Afreksstjóra skal falin fagleg vinna að verkefnum sjóðsins samkvæmt samkomulagi við stjórn. Í því felst einkum:  

  1.  Annast upplýsingaöflun fyrir sjóðsstjórn gagnvart umsækjendum og öðrum hlutaðeigandi. 
  2. Að leiðbeina umsækjendum og annast samskipti við umsækjendur eftir að úthlutun hefur átt sér stað.
  3. Að aðstoða stjórn sjóðsins við að uppfylla skyldur sínar.

10. GREIN – SKILYRÐI FYRIR STYRKVEITINGUM 
Öllu afreksfólki og afreksefnum sem uppfylla skilgreiningu samkvæmt afreksstefnu FRÍ og uppfylla úthlutunarskilyrði sem sett eru hverju sinni er heimilt að sækja um styrk úr Afrekssjóði FRÍ. 
Stuðningur Afrekssjóðs FRÍ felst í fjárframlögum vegna verkefna sem skulu vera fyrirfram skilgreind í aðgerðaráætlun sambandsins.  
Við úthlutun styrkja og framlaga skal gæta jafnræðis, hlutlægni og gagnsæis.

11. GREIN – SKILGREINING AFREKA 
FRÍ skal á hverjum tíma miða við skilgreiningu á afrekum samkvæmt afreksstefnu og aðgerðaráætlun sambandsins en það skjal er lifandi og í sífelldri endurskoðun. 

12. GREIN – VIÐMIÐ AFREKSFLOKKA 
Afrekssjóður FRÍ skal árlega flokka afreksfólk og afreksefni í þrjá flokka: 

I. Framúrskarandi íþróttafólk  
Þeir einstaklingar sem skipa sér með árangri sínum í fremstu röð íþróttafólks í heiminum. Þeir sem ná sæti í úrslitakeppni á stórmótum (ÓL/HM/EM) og/eða enda á meðal 12 fremstu á mótinu. Þeir sem ná að vera á meðal 40 fremstu á heimslista (ranking) World Athletics og/eða 16 fremstu á Evrópulista EAA utanhúss í lok keppnistímabils. Einnig þeir sem ná að vera á meðal 12 fremstu á Evrópulista EAA innanhúss í lok keppnistímabils. Hér er horft til þeirra greina sem keppt er í á HM/EM innan- eða  utanhúss. 

II. Afreksfólk FRÍ  
Þeir einstaklingar sem náð hafa EAA/WA lágmarki til keppni á stórmóti, þ.e. EM, HM, ÓL í fullorðinsflokki og/eða þau sem við lok keppnisárs standa í 75. sæti eða hærra á árslista World Athletics (ranking) eða 50. sæti eða hærra á árslista EAA utanhúss í lok keppnistímabils. Þeir sem ná að vera á meðal 25 fremstu á Evrópulista EAA innanhúss í lok keppnistímabils. Hér er horft til þeirra greina sem keppt er í á HM/EM innan- eða utanhúss. 
Einnig þeir íþróttamenn sem ná 1100 stigum eða meira á stigalista World Athletics (allar greinar) og/eða afreksefni sem komast í úrslit á EM eða HM U23/U20. 

III. Afreksefni FRÍ 
Þeir einstaklingar sem náð hafa EAA/WA lágmarki til keppni á stórmóti ungmenna – EM U23, U20, U18 og HM U20, U18. 

13. GREIN – GRUNDVÖLLUR STYRKVEITINGA 
Styrkir Afrekssjóðs FRÍ eru fyrst og fremst til þess að greiða kostnað við æfingar og undirbúning undir keppni, sem og þátttöku í keppni á alþjóðlegum vettvangi. Þannig styrkir sjóðurinn verkefni sem snúa beint að verkefnum FRÍ og skilgreindri aðgerðaráætlun.  
Við úthlutanir er heimilt að taka sérstakt tillit til þess ef viðkomandi styrkþegi hefur fengið beina styrki frá hinu opinbera eða öðrum aðilum. 

14. GREIN – STYRKUPPHÆÐIR 
Afrekssjóður FRÍ skilgreinir þær upphæðir sem eru til úthlutunar í hverjum flokki og ákveður fjárhæð styrkja í hverju tilfelli. 
Miða skal við að 30-45% af styrkupphæð hvers árs sé veitt í í flokk I, 30-45% í flokk II og 15% í flokk III og 10% í árangurstengdar greiðslur samkvæmt árangurstöflu Afrekssjóðs FRÍ. Fyrir Íslandsmet í fullorðinsflokki er veittur bónus samkvæmt bónustöflu. Miðað er við eitt met á ári í grein og að greinin sé keppnisgrein á HM/EM/ innan- eða utanhúss eða á Ólympíuleikum. 
Unnið skal samkvæmt skilgreiningu í 12. grein. Sé enginn innan flokks má ráðstafa eftir mati Afrekssjóðs FRÍ á milli flokka. 

15. GREIN – TÍMASETNING ÚTHLUTANA 
Afrekssjóður FRÍ skal hafa aðalúthlutun að vori og miða við gefnar forsendur 12, 13 og 14 greinar sjóðsins. Einnig skal úthluta að hausti og gera þá upp árangur ársins með tilliti til bónusa og skoða sérstaklega möguleika á viðbótarúthlutun samkvæmt reglugerð og stöðu sjóðsins. 

16. GREIN – VARÐVEISLA OG AÐGANGUR AÐ GÖGNUM 
Umsóknir, samningar við íþróttamenn og önnur gögn skulu vera í vörslu skrifstofu FRÍ. 
Forsvarsaðilum umsækjenda skal heimilaður aðgangur að þeim gögnum sem viðkomandi hefur sent Afrekssjóði FRÍ á fyrri stigum. Að öðru leyti skal sjóðsstjórn gæta trúnaðar um umsóknir. 

17. GREIN – SAMNINGAR UM STYRKI 
Þegar stjórn Afrekssjóðs FRÍ hefur tekið ákvörðun um úthlutun styrks til umsækjanda, skal gerður samningur þar sem markmið, greiðslur og önnur atriði vegna viðkomandi verkefna og tímabils skulu skilgreind.  

18. GREIN – GREIÐSLUR 
Allar greiðslur úr Afrekssjóði FRÍ skulu berast félagi viðkomandi íþróttamanns. 
Umsækjendum er skylt að verja fjármunum úr Afrekssjóði FRÍ samkvæmt samningi. Heimilt er að skipta greiðslum vegna styrkja og skulu fjárhæðir vera samkvæmt samningi.  

19. GREIN – SKILAGREINAR OG FYRNINGAR 
Styrkþegar Afrekssjóðs FRÍ, skulu senda sjóðsstjórn skilagreinar innan tímamarka sem tilgreind eru í samningi. Hafi skilagrein ekki borist innan mánaðar frá skilafresti, má fella niður þann hluta styrksins sem þá er ógreiddur og segja upp samningi. 

20. GREIN – BREYTTAR FORSENDUR 
Sjóðsstjórn getur frestað eða fellt niður styrkveitingar tafarlaust ef skilyrðum samkvæmt reglugerð þessari er ekki lengur fullnægt, aðstæður breytast eða sjóðsstjórn hafi verið veittar rangar eða villandi upplýsingar.  
Fái einstaklingur sem nýtur sérstaks stuðnings Afrekssjóðs FRÍ greiddar verulegar fjárhæðir vegna íþróttaiðkunar og/eða árangurs getur Afrekssjóður FRÍ dregið úr styrkveitingum sínum eða fellt þær niður. Þá skal Afrekssjóði FRÍ vera heimilt að líta til slíkra atriða við síðari úthlutanir. 

21. GREIN – LYFJAPRÓF 
Falli styrkþegi Afrekssjóðs FRÍ á lyfjaprófi á samningstímabili skal Afrekssjóður FRÍ stöðva frekari greiðslur á meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu frá dómstólum ÍSÍ.  
Verði styrkþegi dæmdur fyrir brot á lyfjalögum ÍSÍ skal tafarlaust segja upp samningi við viðkomandi.

22. GREIN – HEIMASÍÐA SJÓÐSINS 
Afrekssjóður FRÍ skal halda úti aðgreindu vefsvæði á heimasíðu FRÍ þar sem meðal annars skulu koma fram upplýsingar um styrkveitingar, reglur og leiðbeiningar vegna umsókna og auglýsingar sjóðsins varðandi styrki. 

23. GREIN – SLIT SJÓÐSINS 
Ef ákveðið verður að leggja niður starfsemi sjóðsins skulu óráðstafaðar eignir hans renna til sambærilegra verkefna á vegum FRÍ sem falla undir afreksstefnu og aðgerðaráætlun sambandsins.

24. GREIN – GILDISTÍMI 
Reglugerð þessi er sett með tilvísun til samþykktar Frjálsíþróttaþings (2018) um Afreksstefnu og aðgerðaráætlun sambandsins. Reglugerð þessa skal endurskoða árlega.

Stjórn FRÍ

Nánari fyrirspurnir

Deila

Reglugerð um Afrekssjóð FRÍ

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit