Lög FRÍ

1. Gildissvið og fleiri

1.gr.

Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ).
Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) er æðsti aðili um öll frjálsíþróttamál innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ).

2.gr.

Aðild að FRÍ (Sambandsaðilar).
FRÍ er samband héraðssambanda og íþróttabandalaga þeirra félaga innan ÍSÍ sem hafa iðkun frjálsíþrótta á stefnuskrá sinni.

3.gr.

Hlutverk og skyldur.
Helstu hlutverk og skyldur FRÍ eru:
1. Að hafa yfirstjórn allra frjálsíþróttamála á Íslandi.
2. Að vinna að eflingu frjálsíþrótta í landinu.
3. Að setja lög og reglugerðir í frjálsíþróttum sem og framfylgja þeim.
4. Að þjálfa og löggilda dómara, ráðstafa landsmótum, skrá afrek í frjálsíþróttum og staðfesta met.
5. Að vera fulltrúi íþróttagreinar sinnar á alþjóðavísu og sjá um að reglur varðandi greinina séu í samræmi við alþjóðareglur. 6. Að vinna að framgangi heiðarlegrar keppni („Fair-Play“) í frjálsíþróttum í landinu.
7. Að vinna gegn ólöglegri notkun lyfja í frjálsíþróttum.
8. Að framfylgja markmiðum World Athletics að öðru leyti.
Frjálsíþróttir eru (skv. World Athletics): Frjálsíþróttavallargreinar (e. Track and field), götuhlaup, kappganga, víðavangshlaup, fjallahlaup (e. Mountain running) og utanvegahlaup (e. Trail running).

4.gr.

Stjórnun á málefnum FRÍ.
Málefnum FRÍ stjórna:
1. Frjálsíþróttaþing.
2. Stjórn FRÍ.
Stjórn FRÍ getur falið nefndum undirbúning og úrlausn ákveðinna verkefna eftir atvikum hverju sinni.

2. Frjálsíþróttaþing

5.gr. 

Valdsvið og fulltrúar.
Frjálsíþróttaþing fer með æðsta vald í málefnum FRÍ.
Þingið sitja fulltrúar frá þeim aðilum, sem mynda FRÍ.
Fulltrúafjöldi hvers íþróttahéraðs fer eftir tölu virkra frjálsíþróttaiðkenda, sbr. 3. mgr. 21. gr., þannig að fyrir allt að 50 iðkendur komi tveir fulltrúar og síðan einn fyrir hverja 50 eða brot úr 50 upp í allt að 200 og þá einn fyrir hvert heilt hundrað þar fram yfir. Íþróttabandalagið / héraðssambandið getur tekið sér einn fulltrúa af þeim fulltrúafjölda sem til héraðsins reiknast.

6.gr. 

Tímasetning og boðun.
Frjálsíþróttaþing skal haldið í mars eða apríl hvert ár sem endar á jafnri tölu. Skal þingið boðað með formlegum hætti með minnst sex vikna fyrirvara. Fundarboð skal senda þeim aðilum sem eiga rétt á fulltrúum á þingið.
Þingið skal standa í tvo daga og ákvarðar stjórn fundarstað. Heimilt skal að halda þingið á einum degi, enda sé það samþykkt í upphafi þingsins með meirihluta greiddra atkvæða, sbr. 3. mgr. 11. gr..
Frjálsíþróttaþingið er lögmætt, ef löglega hefur verið til þess boðað, sbr. 1. mgr..

7.gr. 

Dagskrá.
Sambandsaðilar skulu tilkynna FRÍ minnst þremur vikum fyrir þing um ályktunartillögur og tillögur að breytingum á reglugerðum (sjá þó 2. ml), sem þeir óska eftir að teknar verði fyrir á þinginu. Lagabreytingartillögur og tillögur að breytingum á keppnisreglum skulu hafa borist FRÍ minnst fjórum vikum fyrir þing.
Stjórn FRÍ skal tilkynna sambandsaðilum skriflega dagskrá þingsins og efni tillagna sem ræða á á þinginu í síðasta lagi tveimur vikum fyrir þing.
Þingið getur með 2/3 atkvæða viðstaddra leyft að taka fyrir mál sem komið er fram eftir að dagskrá þingsins var send sambandsaðilum. Þetta á þó ekki við lagabreytingar eða breytingar á keppnisreglum.

8.gr. 

Fulltrúar og atkvæðisréttur.
Á Frjálsíþróttaþinginu hafa fulltrúar einir atkvæðisrétt, skv. 5. gr. Auk þeirra eiga rétt á þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt:
1. Stjórn FRÍ, varastjórn og skoðunarmenn ársreikninga.
2. Framkvæmdastjórn ÍSÍ.
3. Starfsmenn FRÍ.
4. Allir nefndarmenn FRÍ og trúnaðarmenn FRÍ í öðrum samtökum.
5. Forseti ÍSÍ og formaður UMFÍ.
6. Sérstakir gestir stjórnar FRÍ.
7. Ævi- og heiðursfélagar FRÍ.
8. Fyrrverandi formenn FRÍ.
Aðeins sá, sem er í frjálsíþróttafélagi innan sérráðs eða héraðssambands, er kjörgengur fulltrúi á Frjálsíþróttaþingið. Hver fulltrúi með atkvæðisrétt hefur eitt atkvæði.

9.gr. 

Aukaþing.
Aukaþing má halda, ef nauðsyn krefur eða 1/3 hluti sambandsaðila óskar þess, eða skv. ákvörðun reglulegs Frjálsíþróttaþings. Alla boðunar- og tilkynningarfresti til aukaþings má hafa helmingi styttri en til reglulegs þings.
Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa, sem hefur látist, eða hefur forfallast.
Á aukaþingi má ekki gera lagabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum, eða stjórnin að eigin dómi hefur orðið óstarfhæf.
Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegt Frjálsíþróttaþing.

10.gr. 

Störf Frjálsíþróttaþings.
Frjálsíþróttaþing skal fjalla m.a. um eftirfarandi atriði:
1. Kosningu eftirfarandi þingnefnda:
a) Kjörbréfanefndar.
b) Fjárhagsnefndar.
c) Laganefndar.
d) Allsherjarnefndar.
e) Þingið getur ákveðið með meirihluta greiddra atkvæða að skipa aðrar nefndir til að fjalla um einstök mál.
2. Skýrslu fráfarandi stjórnar.
3. Ársreikninga FRÍ.
4. Fjárhagsáætlun stjórnar til næstu tveggja ára.
5. Tillögur að laga-, reglugerðar- og reglubreytingum.
6. Kosningu stjórnar FRÍ, varastjórnar, tveggja skoðunarmanna ársreikninga og tveggja til vara, formanna fastanefnda sambandsins, fulltrúa á næsta reglulegt þing ÍSÍ í samræmi við lög ÍSÍ og þriggja manna í uppstillingarnefnd FRÍ.
Kjörbréfanefnd skal skipuð þremur mönnum. Aðrar nefndir skulu skipaðar fimm mönnum, en öðrum þingfulltrúum er heimilt að velja sér starfsnefndir.
Stjórn FRÍ setur nánari reglur um störf og dagskrá Frjálsíþróttaþings.

11.gr. 

Kosningar til stjórnar og fulltrúa á þing ÍSÍ og afgreiðslu almennra mála.
Kosningar á þinginu skulu vera leynilegar.
Kosning skal vera bundin.
Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu almennra mála og í kosningum.

12.gr.

Þessum lögum verður ekki breytt nema með samþykki 2/3 hluta atkvæða skráðra fulltrúa, með viðurkennd kjörbréf, á Frjálsíþróttaþingi.

13.gr.

Reikningsskil.
Reikningsár FRÍ er almanaksárið.
Endurskoðaðir og áritaðir reikningar skulu liggja fyrir viku fyrir Frjálsíþróttaþing.

14.gr.

Starfsskýrsla.
Stjórn skal leggja starfsskýrslu fyrir Frjálsíþróttaþing.
Innan mánaðar frá þingslitum skal senda framkvæmdastjórn ÍSÍ og sambandsaðilum FRÍ starfsskýrslu stjórnar og ágrip af fundargerðum þingsins.

3. Stjórn og nefndir FRÍ

15.gr.

Skipan stjórnar.
Stjórn FRÍ skipa fimm manns sem kosnir eru á Frjálsíþróttaþingi. Kjósa skal fimm varamenn og skulu þeir taka sæti í aðalstjórn í sömu röð og þeir eru kosnir eða bornir upp.
Skipan og hlutverk stjórnar skal vera eftirfarandi:
1. Formaður, sem kosinn er sérstaklega.
Forfallist formaður varanlega, eða segi af sér, skal stjórnin koma sér saman um hver tekur við formannsembættinu fram að næsta þingi eða aukaþingi.
2. Aðrir stjórnarmenn skipta með sér verkum sem hér segir:
a) Varaformaður.
b) Ritari.
c) Gjaldkeri, sem jafnframt er formaður fjárhagsnefndar. d) Meðstjórnandi.
3. Fimm varamenn.
4. Auk þess skulu íslenskir fulltrúar í stjórnum World Athletics/ EAA eiga rétt til setu, með málfrelsi tillögu- og atkvæðarétti í stjórn FRÍ.
5. Heiðursformaður hefur seturétt á fundum stjórnar, með málfrelsi, en án atkvæðisréttar.

16.gr.

Hlutverk og verkefni stjórnar.
Hlutverk stjórnar FRÍ er eftirfarandi:
1. Að hafa yfirstjórn allra íslenskra frjálsíþróttamála milli Frjálsíþróttaþinga.
2.Að framkvæma ályktanir Frjálsíþróttaþingsins.
3. Að vinna að eflingu frjálsíþrótta í landinu.
4. Að annast erlend samskipti.
5. Að gefa út leikreglur og reglugerðir fyrir frjálsíþróttir, sem séu jafnan í samræmi við alþjóðareglur.
6. Að líta eftir því að lögum og reglugerðum FRÍ, World Athletics, EAA og ÍSÍ sé fylgt.
7. Að úthluta þeim styrkjum til frjálsíþrótta, sem FRÍ fær til umráða.
8. Að staðfesta Íslandsmet í frjálsíþróttum.
9. Að staðfesta réttindi dómara.
Stjórninni er heimilt að skipa starfsnefndir til að sinna einstökum verkefnum eftir því sem hún telur nauðsynlegt hverju sinni. Starfstímabil nefnda skal aldrei vera nema fram að næsta Frjálsíþróttaþingi, nema að annað sé tekið fram í lögum þessum.

17.gr.

Stjórn FRÍ setur  reglugerðir um þau málefni sem snúa að allri framkvæmd laga þessara. Nær það til allra breytinga á gildandi reglugerðum sem og setningu nýrra reglugerða.
Breytingar á reglugerðum taki ekki gildi fyrr en eftir kynningu og umræðu á formannafundi.  Nánari útfærsla er skv. reglugerð nr. 53 um starfsreglur stjórnar vegna setningar reglugerða.

18.gr.

Formaður FRÍ boðar stjórnarfundi og stjórnar þeim. Formaður getur falið varaformanni eða framkvæmdastjóra að boða fundi.
Fundi stjórnar skal boða með minnst fjögurra daga fyrirvara og dagskrá liggja fyrir sólarhring fyrir fund.
Heimilt er að taka mál fyrir á fundi þó það hafi ekki verið kynnt í dagskrá, enda sé meirihluti stjórnarmanna sammála því.
Til þess að ákvarðanir í málum, sem stjórnin fjallar um séu gildar, þarf samþykki meirihluta stjórnarinnar á löglegum stjórnarfundi. Stjórnarfundur telst löglegur ef a.m.k. þrír kjörnir stjórnar- eða varastjórnarmenn eru viðstaddir og allir stjórnarmenn hafa verið boðaðir á fundinn.
Fundi í stjórninni skal halda reglulega, samkvæmt ákvörðun formanns. Varastjórnarmenn skulu einnig boðaðir á fundi með sama hætti og taka sæti aðalmanna í forföllum þeirra.
Auk þess skal kalla saman stjórnarfundi, eins fljótt og auðið er, ef tveir eða fleiri stjórnarmenn óska þess. Stjórn FRÍ getur sett sér nánari fundarsköp fyrir stjórnarfundi um ákvarðanatöku, boðun og stjórnun funda.
Fundargerðir og ákvarðanir stjórnar skal birta á heimasíðu FRÍ innan viku frá fundi.

19.gr.

Nefndir FRÍ.
Eftirtaldar fastanefndir skulu starfa innan FRÍ: Dómaranefnd, fjárhagsnefnd, fræðslu- og útbeiðslunefnd, íþrótta- og afreksnefnd, íþróttamannanefnd, laganefnd, langhlaupanefnd, mótanefnd, mannvirkjanefnd, orðunefnd, skráningarnefnd, unglinganefnd og öldungaráð.
Formenn fastanefnda FRÍ skulu kosnir á Frjálsíþróttaþingi til tveggja ára í senn, nema fjárhagsnefndar, en gjaldkeri stjórnar er formaður hennar.

Ef formaður fastanefndar hverfur frá störfum áður en starfstíma lýkur þá hefur stjórn FRÍ heimild til þess að setja nýjan formann sem starfar þannig fram að næsta Frjálsíþróttaþingi.
Stjórn FRÍ skipar tvo til fjóra nefndarmenn til viðbótar í samráði við formenn hlutaðeigandi nefnda.
Formenn nefnda boða fundi og stýra þeim. Nefndir FRÍ eru stjórn FRÍ til ráðgjafar. Þær hafa ekki sérstakan fjárhag eða ákvörðunarvald eða geta skuldbundið sambandið fjárhagslega. Heimilt er þó að fela þeim ákveðna ábyrgð, sbr. 4. gr. og skal skilgreint í starfsreglum nefndanna hvernig skuli staðið að ákvarðantöku. Nefndir skulu senda fundargerðir sínar til staðfestingar á næsta fundi stjórnar FRÍ. Birta skal fundargerðir nefnda á heimasíðu FRÍ innan viku frá staðfestingu stjórnar.
Stjórninni er heimilt að skipa aðrar nefndir til einstakra verkefna hverju sinni.
Starfstímabil fastanefnda og annara nefnda skal aldrei vera nema fram að næsta Frjálsíþróttaþingi.
Íþróttamannanefnd skal kosin af keppendum á Meistaramóti Íslands utanhúss í kjölfar Frjálsíþróttaþings. Hún skal skipuð fimm íþróttamönnum, a.m.k. tveimur af hvoru kyni. Starfstími hennar er tvö ár.
Formaður FRÍ, eða staðgengill hans, skal eiga seturétt, með málfrelsi, en án atkvæðisréttar, í öllum nefndum og ráðum á vegum sambandsins.

20.gr.

Formannafundur FRÍ.
Stjórn FRÍ skal boða til formannafundar á hverju hausti og að vori þau ár sem þing er ekki haldið. Boða skal formenn allra félaga innan FRÍ eða varamenn þeirra, einn frá hverju félagi. Auk þeirra skulu eiga rétt til setu, með málfrelsi og tillögurétti, stjórnarmenn og starfsmenn FRÍ, fulltrúar allra nefnda sambandsins og fulltrúar FRÍ í stjórnum og nefndum utan sambandsins innan lands sem utan.
Hlutverk formannafunda að hausti er að yfirfara mótaskrá og tillögu að fjárhagsáætlun næsta árs. Auk þess skal stjórn FRÍ leggja fram skýrslu um störf sín frá síðasta formannafundi eða þingi og upplýsa fundinn um öll helstu mál sem komið hafa til umræðu eða meðferðar.
Á vorfundum skal leggja fram yfirlit um störf stjórnar frá síðasta formannafundi og fara yfir þátttöku í alþjóðlegum mótum og kostnað henni tengdan. Þá skal stjórn leggja fram ársreikninga næstliðins árs til kynningar.
Á dagskrá formannafunda skal auk ofangreinds taka hvert það mál sem formenn eða stjórn óska að ræða.
Formannafundi skal boða með fjögurra vikna fyrirvara og skal send út dagskrá með a.m.k. viku fyrirvara. Haustfundi skal að jafnaði halda í október eða nóvember ár hvert og vorfundi í mars eða apríl, þau ár sem þing eru ekki haldin.
Fimm eða fleiri formenn geta krafist auka-formannafundar og skal sú krafa send stjórn skriflega. Í kröfunni skal greina ástæður þess að fundar er krafist. Komi slík krafa fram skal stjórn FRÍ boða til fundarins og hann haldinn innan fimm vikna frá því að staðfest krafa berst.

4. Sérráð og sambandsaðilar FRÍ

21.gr.

Skýrslur.
Sambandsaðilar eru milliliðir milli félaga sinna og stjórnar FRÍ.
Sambandsaðilar skulu senda fyrir 15. apríl ár hvert til ÍSÍ árskýrslur um störf sín og tölu iðkenda í umdæminu. Fulltrúaréttur og fulltrúafjöldi sambandsaðila á Frjálsíþróttaþingi ákvarðast af fjölda virkra iðkenda skv. skýrslum til ÍSÍ, sbr. 3. mgr. 5. gr. Aðilar sem ekki senda inn skýrslur missa rétt til þátttöku á Frjálsíþróttaþingi.

22.gr.

Stofnun nýrra sérráða.
Stjórn FRÍ skal, í samráði við hlutaðeigandi héraðssambönd/ íþróttabandlög, vinna að stofnun nýrra sérráða.

23.gr.

Aðgangur stjórnar.
Stjórn FRÍ hefur frjálsan aðgang að öllum frjálsíþróttamótum og sýningum, sem fram fara innan vébanda FRÍ.
Einnig á hún rétt á að sitja aðalfundi sérráða, dómarafélaga og héraðssambanda/ íþróttabandalaga, sem eru aðilar að sambandinu.

5. Alþjóðlegar skyldur

24.gr.

Misnotkun lyfja og lyfjapróf.
Misnotkun lyfja skv. lista World Athleticsog Alþjóðalyfjaeftirlitsins (WADA) er bönnuð. FRÍ skuldbindur sig til að lyfjapróf séu framkvæmd utan keppni, skv. reglum World Athletics.
FRÍ skuldbindur sig til að leyfa Lyfjaeftirliti Íslands, World Athletics og EAA að framkvæma lyfjapróf utan keppni á einstaklingum innan vébanda þess sem og á mótum á vegum þess.
Ennfremur skuldbindur FRÍ sig til að kynna lyfjareglur World Athletics fyrir keppendum á alþjóðlegum frjálsíþróttamótum og að þeir undirriti samþykki sitt fyrir alþjóðlegum reglum sem gilda.
Keppendur á alþjóðlegum mótum, sem hafa sótt um og fengið undanþágu frá reglum um lyfjanotkun vegna lyfjagjafar (TUE), verða einnig sækja um undanþágu World Athletics.
Ákvæði um lyfjamál, skv. reglum World Athletics, ná til allra sem starfa opinberlega innan vébanda frjálsíþróttahreyfingarinnar. FRÍ skal að öðru leyti fara að reglum World Athletics um lyfjamál og gefa World Athletics skýrslu árlega um fjölda prófa utan keppni.

25.gr.

Umboðsmenn íþróttamanna.
FRÍ skal viðurkenna og halda skrá um umboðsmenn íþróttamanna. Viðurkenndir umboðsmenn verða að hlýða lögum og reglum FRÍ.
Aðeins einstaklingar, (ekki fyrirtæki), geta orðið umboðsmenn íþróttamanna. Viðurkenndir umboðsmenn mega annast skipulag mótaþátttöku og samskipti og samninga við mótshaldara.
Ágreiningi milli umboðsmanna og íþróttamanna skal vísað til dómstóls ÍSÍ.
Gera skal samning milli íþróttamanns og umboðsmanns og skal hann innihalda a.m.k. eftirfarandi atriði: a) gildistíma, b) uppsagnarákvæði, c) skyldur umboðsmanns eins og þær eru skilgreindar í leiðbeiningum World Athletics, d) laun umboðsmanna.
Íþróttamenn mega ekki gera samning við umboðsmann lengur en til eins árs í senn. Þeim ber að senda stjórn FRÍ tilkynningu um umboðsmenn sína ár hvert. FRÍ ber að tikynna til World Athletics í ársbyrjun um umboðsmenn íþróttamanna sem eru meðal 30 bestu í sinni grein árið á undan.

26.gr.

Um meðferð deilumála.
Dómstólar ÍSÍ fara með mál sem upp kunna að koma innan frjálsíþróttahreyfingarinnar. Stjórn FRÍ getur þó úrskurðað í málum er varða keppnisreglur. Skal þá farið eftir reglum World Athletics, eftir því sem við á. Slíkum úrskurði geta aðilar þó vísa til dómstóls ÍSÍ eða stjórnar World Athletics, eða Alþjóða íþróttadómstólsins (CAS), eftir því sem við á hverju sinni.
Öllum deilumálum, sem upp kunna að koma, á milli FRÍ, annarra aðildarsambanda World Athletics og World Athletics skal stjórn FRÍ vísa til stjórnar World Athletics til meðferðar.

27.gr.

FRÍ skuldbindur sig til að fara að, viðurkenna og virða lög og reglur World Athletics og EAA eftir því sem það á við hverju sinni, m.a. er varðar lyfjamál, meðferð deilumála og hlutverk og skyldur umboðsmanna íþróttamanna.

6. Heiðranir

28.gr.

Ævifélagar
Ævifélagar FRÍ geta þeir orðið, sem stjórn FRÍ samþykkir og greiða í sjóð ævifélaga FRÍ. Heiðursfélaga FRÍ má stjórn þess kjósa ef hún er einhuga um það.

29.gr.

Kosning heiðursformanns.
Heiðursformann FRÍ má Frjálsíþróttaþing kjósa ef einfaldur meirihluti af mættum fulltrúum er því samþykkur. Heiðursformaður FRÍ kemur fram f.h. FRÍ við tækifæri, sem stjórn eða formaður FRÍ kunna að fela honum. Heiðursformaður hefur seturétt á fundum stjórnar, með málfrelsi, en án atkvæðisréttar.

30.gr.

Heiðursmerki
Heiðursmerki FRÍ er ferns konar: eir, silfur, gull og heiðurskross og veitast aðeins fyrir vel unnin störf í þágu frjálsíþrótta og má eigi veita árlega fleiri merki en sem hér segir:
a) Eirmerki: mest 7 veitingar á ári.
b) Silfurmerki: mest 5 veitingar á ári, og skulu líða minnst 4 ár frá veitingu eirmerkis.
c) Gullmerki: mest 3 veitingar á ári og skulu líða minnst 4 ár frá veitingu silfurmerkis.
d) Heiðurskross FRÍ er æðsta heiðursmerki FRÍ og skulu ekki fleiri en 5 einstaklingar bera hann samtímis.
Sé manni veitt æðra merki en hann þá ber, skal hann skila því er hann hafði. Heimilt er að veita erlendum ríkisborgurum merkið. Stjórn FRÍ ákveður á stjórnarfundi, þar sem öll aðalstjórnin er mætt, hverja skuli sæma heiðursmerki á ári hverju, og um veitingu gullmerkis og heiðurskross verður öll stjórnin að vera sammála. Veiting heiðursmerkis FRÍ skal fara fram á stofndegi sambandsins 16. ágúst, á Frjálsíþróttaþingi eða við tilefni er stjórn FRÍ ákveður.

7. Önnur ákvæði

31.gr.

Staðfesting Íslandsmeta.
Umsóknir um Íslandsmet og afreksmerki í frjálsíþróttum skal senda FRÍ til staðfestingar, ásamt skýrslu um afrekið og umsögn hlutaðeigandi sérráðs/héraðssambands, skv. reglugerð þar að lútandi.

32.gr.

Vanhæfi
Einstaklingi í trúnaðar- og ábyrgðastöðum innan sambandsins ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega, að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.
Sá sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess. Honum er þó heimilt að gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að halda máli í réttu horfi á meðan staðgengill er ekki til staðar.

33.gr.

Tillögur um að leggja FRÍ niður má aðeins taka fyrir á lögmætu Frjálsíþróttaþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu þarf minnst 3/4 hluta atkvæða skráðra fulltrúa, með viðurkennd kjörbréf. Hafi slík tillaga verið samþykkt, skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þingskýrslunni og skal stjórn FRÍ kalla til nýs þings. Með fulltrúakjöri sínu til þess þings taka aðilar afstöðu til tillögunnar. Verði tillagan þá samþykkt aftur með 3/4 hluta atkvæða, er það fullgild ákvörðun um að leggja FRÍ niður. Ákveður það þing síðan hvernig ráðstafa skuli eignum FRÍ, en þeim má aðeins verja til eflingar frjálsíþrótta í landinu.

34.gr.

Gildissvið gagnvart öðrum lögum.
Ef ekki er samræmi á milli þessara laga og laga ÍSÍ eða laga World Athletics skulu lög ÍSÍ og World Athletics gilda.

Þannig samþykkt á 64. Frjálsíþróttaþingi á Sauðárkróki, 16. mars 2024.

Lög

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit