Tvö met sett í Kastþraut Óla Guðmunds

Í karlakeppnini fóru leikar þannig, eftir hörkukeppni, að hinn 16 ára bráðefnilegi kastari úr ÍR, Hilmar Örn Jónsson stóð uppi sem sigurvegari með 3514 stig sem er sex stigum meira en sigurvegarinn í fyrra, Jón Bjarni Bragason náði en hann gat ekki verið með í ár sökum meiðsla. Árangur Hilmars í einstökum greinum varð eftirfarandi: Sleggjukast: 55,08m. Kringlukast: 39,72m. Kúluvarp: 11,96m. Spjótkast: 40,90m. Lóðkast 15,25m sem er glæsileg bæting á hans eigin Íslandsmeti í 16-17 ára flokki, gamla metið var 14,75m. Annar varð Selfyssingurinn Örn Davíðsson sem keppir fyrir FH með 3487 stig, sem er bæting hjá honum og bronsið hreppti ungur og efnilegur ÍR ingur, Sindri Lárusson með 3309 stig, en Sindri setti Íslandsmet í 18-19 ára flokki í kúluvarpi þegar hann þeytti kúlunnu 16,27m. og sló þar með 33 ára gamalt met Selfyssingsins Óskars Reykdalssonar sem var 16,08m. Aðrir keppendur voru gestgjafinn Ólafur Guðmundsson sem varð fjórði, Ingólfur Guðjónsson, ÍR í fimmta sæti, Magnús Björnsson, Breiðabliki sjötti, Sölvi Guðmundsson, Breiðabliki sjöundi, Dagur Fannar Magnússon, Selfossi, áttundi, Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki, níundi, Guðmundur Nikulásson Dímon, tíundi , Styrmir Dan Steinunnarson Þór, ellefti og Barði Páll Böðvarsson Selfossi, tólfti. Þess má til gamans geta á stigamet karla í kastþrautinni er 3727 stig sem er í eigu Óðins Björns Þorsteinssonar Ólympíufara úr FH.
 
Hjá kvenfólkinu varði Anna Pálsdóttir frá Selfossi, sigurvegari þriggja síðustu ára, titilinn með 2789 stig sem er bæting um 109 stig. Árangur Önnu í einstökum greinum varð eftirfarandi: Sleggjukast: 30,82m. Kringlukast: 30,73m. Kúluvarp: 9,22m. Spjótkast: 32,82m. Lóðkast 12,12m Önnur varð Ágústa Tryggvadóttir, Selfossi, sem rakaði saman 2330 stigum, þriðja varð svo Eyrún Halla Haraldsdóttir, Selfossi með 2291 stig. Aðrir keppendur voru Jóhanna Herdís Sævarsdóttir Laugdælum sem varð fjórða, Bryndís Eva Óskarsdóttir, Selfossi fimmta, Thelma Björk Einarsdóttir, Selfossi, sjötta, Halla María Magnúsdóttir, Selfossi, sjöunda og Aðalheiður María Vigfúsdóttir, Breiðablik, áttunda.

FRÍ Author