Tvö mótsmet og tvö gull á Manchester International

Glæsilegur árangur náðist hjá íslensku keppendunum á Manchester International í gær. Guðni Valur Guðnason sigraði kringlukastið með kasti uppá 62,91 metra og setti um leið nýtt mótsmet. Guðni keppti einnig í kúluvarpi þar sem hann varð þriðji þegar kúlan flaug 17,35 metra. Aðeins tveimur sentimetrum frá hans besta árangri. Hafdís Sigurðardóttir setti einnig mótsmet í gær þegar hún stökk 6,24 metra í langstökki og sigraði. Ívar Kristinn Jasonarson stóð sig frábærlega í 400 metra grindarhlaupi þar sem hann bætti sinn besta árangur og hljóp í fyrsta skipti undir 52 sekúndum. Ívar varð fimmti og kom í mark á tímanum 51,76 sekúndum sem gerir hann þriðja hraðasta Íslending í greininni frá upphafi.

Kristín Karlsdóttir kastaði 46,39 metra í kringlukasti og varð í fimmta sæti. Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir keppti bæði í 100 og 200 metra spretthlaupi. Í 100 metra hlaupinu hljóp Hrafnhild á 12,03 sekúndum og í 200 metra hlaupinu á 24,56 sekúndum. Í 100 metra hlaupinu var meðvindur 3,2 m/s og í 200 metra hlaupinu var hann 3,3 m/s. Jóhann Björn Sigurbjörnsson keppti í 100 metra spretthlaupi og kom í mark á tímanum 10,70 sekúndum þar sem meðvindur var 3,4 m/s. Hilmar Örn Jónsson varð fjórði í sleggjukasti þar sem hann kastaði lengst 64,42 metra.

Þegar líða tók á mótið þá bættist í vindinn og rigninguna. Aðstæður voru því ekki frábærar þegar Kristinn Þór Kristinsson keppti í 800 metra hlaupi þar sem hann hljóp á 1:53,90 mínútum í jöfnu hlaupi. Kristinn kom í mark aðeins einni og hálfri sekúndu á eftir fyrsta manni. Síðastur til að hefja keppni var svo Hlynur Andrésson sem keppti í 1500 metra hlaupi þar sem hann varð í 4. sæti á tímanum 3:49,47 mínútum.