Tvö mótsmet á Meistaramóti Íslands

Meistaramót Íslands fór fram á Akureyri um helgina. 177 keppendur voru skráðir á mótið þar sem keppt var um 37 Íslandsmeistaratitla. Tvö mótsmet voru sett um helgina og bæði í sleggjukasti. Það voru FH-ingarnir Hilmar Örn Jónsson og Vigdís Jónssdóttir sem settu þau. Þau áttu sjálf mótsmetin sem þau settu í fyrra. Þau eiga einnig Íslandsmetin í greininni. Stigahæsta afrekið í karlaflokki átti Hilmar Örn fyrir sleggjukastið, 1099 stig. Í kvennaflokki var það Hafdís Sigurðardóttir, UFA, í langstökki, 1053 stig.

Lið ÍR og FH voru bæði með þrettán gull á mótinu hvort um sig en ÍR var með fleiri verðlaun í heildina eða 42 á móti 26 hjá FH. Ekki var haldin stigakeppni félagsliða vegna þess að fjöldi keppenda var í sóttkví og því voru ekki krýndir Íslandsmeistarar félagsliða.

Mótsmet í sleggjukastinu

Í sleggjukasti karla sigraði Hilmar Örn Jónsson, FH, með miklum yfirburðum. Hann kastaði 73,84 metra, setti um leið mótsmet og átti stigahæsta afrekið. Í kvennaflokki sigraði Vigdís Jónsdóttir einnig með miklum yfirburðum. Hún kastaði 60,82 metra og setti líka mótsmet. Fyrirfram var búist við jafnri keppni milli Elísabetar Rutar Rúnarsdóttur úr ÍR og Vigdísar en þær eru í efstu tveimur sætum afrekalistans. Elísabet náði sér ekki á strik um helgina og átti aðeins eitt gilt kast.

Guðbjörg fjórfaldur Íslandsmeistari

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, varð um helgina fjórfaldur Íslandsmeistari. Hún sigraði í 100 metra hlaupinu á 11,70 sekúndum (+2,0 m/s) og í 200 metra hlaupinu á 24,04 sekúndum (+2,4 m/s). Svo var hún hluti af sigursveit ÍR í 4×100 metra og 4×400 metra boðhlaupinu.

Tvö gull og silfur hjá Arnari

Arnar Pétursson, Breiðabliki, keppti í fjórum greinum um helgina og vann til þrennra verðlaun. Í 5000 metra hlaupi kom hann fyrstur í mark á 15:31,99 mínútum og í 3000 metra hindrunarhlaupi á 10:51,97 mínútum. Í 1500 metra hlaupinu fékk hann silfur en í því hlaupi sigraði Hlynur Ólason, ÍR, á 4:13,15 mínútum.

Gull hjá Hafdísi á heimavelli

Íslandsmethafinn í langstökki, Hafdís Sigurðardóttir, var mætt til keppni á Meistaramóti Íslands. Hafdís keppir fyrir UFA og var því á heimavelli um helgina. Hafdís keppti í langstökkinu og sigraði það örugglega með 6,25 metra stökki. Stökk Hafdísar var það stigahæsta í kvennaflokki á mótinu, 1053 stig.

Kolbeinn Höður þrefaldur Íslandsmeistari

Kolbeinn Höður Gunnarsson, FH, keppti um helgina í öllum þremur spretthlaupsgreinum mótsins, 100, 200 og 400 metrum. Hann kom fyrstur í mark og fékk gull í öllum þremur greinunum og varð því þrefaldur Íslandsmeistari. Tíminn hans í 100 metra hlaupinu var 10,68 sekúndur (+2,2 m/s), 21,57 sekúndur (+2,1 m/s) í 200 metra hlaupinu og í 400 metra hlaupinu kom hann í mark á 49,92 sekúndum. Kolbeinn var einnig hluti af sveit FH sem fékk silfur í 4×100 metra boðhlaupi.

Sigþóra sigraði í 3000 metra hlaupinu

Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, UFA, var mætt á brautina í fyrsta skipti í langan tíma til þess að keppa í 1500 og 3000 metra hlaupi. Sigþóra hefur mest verið í lengri götuhlaupum þar sem hún hefur náð flottum árangri en sýndi það um helgina að hún býr einnig yfir góðum hraða. Hún vann til gullverðlauna í 3000 metra hlaupinu og silfur í 1500 metra hlaupinu.

Guðni og Erna með gull í sínum greinum

Erna Sóley Gunnarsdóttir, ÍR, sigraði í sinni sterkustu grein sem er kúluvarp. Hún kastaði og 15,40 metra og vann nokkuð örugglega. Hún keppti einnig í kringlukasti þar sem hún varð þriðja og í spjótkasti þar sem hún lenti í fimmta sæti. Guðni Valur Guðnason, ÍR, var einnig mættur til Akureyrar um helgina. Guðni hefur verið að glíma við meiðsli í nára undanfarið en þrátt fyrir það sigraði hann bæði í kúluvarpi og kringlukasti. Í kúluvarpinu tók hann bara eitt kast og kastaði 16,37 metra. Í kringlukastinu kastaði hann lengst 59,13 metra.

Bráðabani í hástökki kvenna

Í hástökki kvenna þurfti bráðabana til þess að skera úr um úrslitin. Birta María Haraldsdóttir, FH og Helga Þóra Sigurjónsdóttir, Fjölni, stukku báðar yfir 1,68 metra án þess að hafa fellt neina hæð. Þær felldu báðar 1,71 í þremur tilraunum. Því var farið í bráðbana þar sem Birta María stökk yfir 1,69 metra en ekki Helga Þóra. Birta María var því krýnd Íslandsmeistari og var hún yngsti Íslandsmeistarinn um helgina. Hún er einungis á sextánda aldursári.

Í 800 metra hlaupi karla sigraði Sæmundur Ólafsson, ÍR á 1:57,53 mínútum og í kvennaflokki var það Ingibjörg Sigurðardóttir, ÍR, sem kom fyrst í mark á 2:22;11 mínútum. Ingibjörg sigraði einnig í 400 metra grindarhlaupi kvenna á 1:03,68 mínútum. Í 400 metra hlaupi kvenna sigraði Þórdís Eva Steinsdóttir, FH, á 57,38 mínútum. Í 400 metra grindarhlaupi karla sigraði Dagur Fannar Einarsson, HSK/Selfoss, á 55,69 sekúndum sem er bæting. Í 110 metra grindarhlaupi kom Árni Björn Höskuldsson, FH, fyrstur í mark á 15,12 sekúndum og í 100 metra grindarhlaupi var það Glódís Edda Þuríðardóttir, KFA, á 14,12 sekúndum.

Í hástökki karla sigraði Kristján Viggó Sigfinsson, Ármanni, með 2,02 metra stökki. Ingi Rúnar Kristinsson, Breiðabliki, stökk hæst í stangarstökki þegar hann stökk yfir 4,42 metra. Í lanstökki fékk Gylfi Ingvar Gylfason, Aftureldingu, þegar hann stökk 6,82 metra. Í þrístökki var það Kristinn Torfason, FH, sem stökk lengst, 14,22 metra.

Í spjótkasti köstuðu María Rún Gunnlaugsdóttir, FH, og Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR, lengst. María kastaði 39,97 metra og Dagbjartur 76,33 metra. Í kringlukasti kvenna kastaði Kristín Karlsdóttir, FH, lengst 48,40 metra og fékk gull. Í stangarstökki vann Karen Sif Ársælsdóttir, Breiðabliki, þegar hún stökk yfir 3,32 metra. Hekla Sif Magnúsdóttir, FH, tryggði sér titilinn í þrístökki kvenna í síðasta stökki sínu þegar hún stökk 11,95 metra. Fyrir það hafði Hildigunnur Þórarinsdóttir, ÍR, verið í forystu. Í 1500 metra hlaupi sigraði Anna Karen Jónsdóttir, FH, á 4:59,56 mínútum.

Hér má sjá öll úrslit mótsins.

Á mótinu starfaði fjöldinn allur af sjálfboðaliðum sem gerði mótinu kleift að fara fram. Einn af þeim var Hreinn Halldórsson, fyrrum Evrópumeistari í kúluvarpi innanhúss.