Tvö Íslandsmet slegin á síðasta degi Smáþjóðaleikanna

Þriðja og síðasta keppnisdegi Smáþjóðaleikanna lauk í gær.

Ísland endaði í 2. sæti frjálsíþróttakepninnar með 24 verðlaunapeninga og þar af 11 gullverðlaun.

Dagurinn hófst með 100m grindahlaupi kvenna þar sem María Rún Gunnlaugsdóttir var okkar fulltrúi. Náði hún 4. sætinu á tímanum 14,69 sek.

Mikil spenna var fyrir 200m hlaupi kvenna og karla þar sem Ísland sendi mjög sterka keppendur í ár.

Í úrslitum í 200m hlaupi kvenna tefldi Ísland fram tveimur keppendum, Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur og Tiönu Ósk Whitworth. Hlupu þær gríðarlega vel og bættu báðar sinn persónulega árangur í hlaupinu. Guðbjörg Jóna náði 2. sæti á tímanum 24,13 sek og Tiana Ósk náði 4. sæti á tímanum 24,53 sek. Glæsilegt hjá þeim!

Í úrslitum 200m hlaups karla voru Kolbeinn Höður Gunnarsson og Ari Bragi Kárason mættir til leiks. Þeir nældu í gull og bros í hlaupinu fyrir Ísland með gríðarlega flottu hlaupi. Kolbeinn náði 1. sæti á tímanum 21,20 sek og Ari Bragi náði 3. sæti á tímanum 21,78. Rosalega vel gert hjá þeim!

Í þrístökki karla keppti Þorsteinn Ingvarsson og stökk hann lengst 14,43 og endaði í 4. sæti.

Thelma Lind Kristjánsdóttir keppti fyrir Ísland í kringlukasti kvenna. Kastaði hún lengst 49,38 m og varð í 3. sæti.

Ný Íslandsmet litu dagsins ljós 4x100m boðhlaupum karla og kvenna.

Íslenska kvennasveitin tryggði sér gullverðlaun og setti nýtt glæsilegt Íslandsmet með því að hlaupa á tímanum 45,31 sek og var hún 1 sekúndu á undan næstu boðhlaupssveit. Slógu þær þar með 21 árs gamalt Íslandsmet en það var áður 45,71 sek. Íslensku sveitina skipuðu þær Örnu Stefaníu Guðmundsdóttur, Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttir, Hrafnhildi Eir Hermóðsdóttir og Tiönu Ósk Whitworth.

Íslenska karlasveitin tryggði sér einnig gullverðaun og setti nýtt glæsilegt Íslandsmet með því að hlaupa á tímanum 40,45 sek og var hún 1,15 sek á undan næstu boðhlaupssveit. Slógu þeir þar Íslandsmetið sem sett var á Evrópubikar í Búlgaríu fyrir 2 árum en það var 40,72 sek. Íslensku sveitina skipuðu þeir Ari Bragi Kárason, Ívar Kristinn Jasonarson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Trausti Stefánsson.

Frjálsíþróttakeppninni lauk á 4x400m boðhlaupum karla og kvenna.

Íslenska kvennasveitin hljóp til sigurs á tímanum 3:47,64 og var um sekúndu á undan næstu boðhlaupssveit. Íslensku sveitina skipuðu þær Arna Stefanía Guðmundsdóttir, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir og María Rún Gunnlaugsdóttir.

Íslenska karlasveitin endaði í 4. sæti á tímanum 3:17,19 sek. Íslensku sveitina skipuðu þeir Bjartmar Örnuson, Ívar Kristinn Jasonarson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Kristinn Þór Kristinsson.

Miðað við árangur íslenska liðsins undanfarna daga er ljóst að landsliðsfólkið er í feiknargóðu formi þessa dagana og verður mjög spennandi að fylgjast með því keppa í sumar.

Næsta stórmót er Evrópubikarkeppni landsliða sem fer fram í Tel Aviv í Ísrael dagana 24.-25. júní.

ÁFRAM ÍSLAND!!!