Tvö Íslandsmet á RIG 2019

Á sunnudaginn fór fram frjálsíþróttakeppni Reykjavík International Games 2019 þar sem fremsta frjálsíþróttafólk Íslands mætti erlendum keppendum. Tvö Íslandsmet féllu, fjögur mótsmet og margar persónulegar bætingar. Stigahæsta afrek mótsins í karlaflokki var 60 metra hlaup Marcellus Moore og í kvennaflokki var það Hafdís Sigurðardóttir fyrir langstökk.

Einn efnilegasti spretthlaupari heims

Marcellus Moore sigurvegari í 60m á RIG 2019

Á Reykjavíkurleikana mættu átta ungmenni frá Bandaríkjunum og skipuðu þau tvær 4×200 metra boðhlaupssveitir. Þau kepptu einnig öll í einstaklingsgreinum og í 60m hlaupi karla sigraði Marcellus Moore á tímanum 6,71 sek. Sá tími skilar honum efsta sætinu á heimslistanum fyrir pilta yngri en 18 ára. Á síðasta ári var hann annar á heimslistanum í 100 metra hlaupi og því verður gaman að fylgjast með honum á næstu árum. Í öðru sæti varð Ronnie Wells frá Bretlandi á tímanum 6,77 sek og í því þriðja varð Malcolm Johnson frá Bandaríkjunum á 6,96 sek. Í fjórða sæti var Jóhann Björn Sigurbjörnsson, UMSS á 7,04 sek. Í 400 metra hlaupi karla sigraði Ashton Allen frá Bandaríkjunum á tímanum 47,70 sek sem er nýtt mótsmet. Kormákur Ari Hafliðason úr FH varð fyrstur Íslendinganna og fjórði í heildina. Hann hljóp á tímanum 49,47 sek.

Í 60 metra hlaupi kvenna sigraði Finette Agyapong frá Bretlandi á 7,47 sek, í öðru sæti varð Astrid-Glenner-Frandsen frá Danmörku og í því þriðja og á persónulegu meti varð Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR á 7,51 sekúndu. Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH sigraði 400 metra hlaup kvenna á 55,98 sekúndum og í öðru sæti varð Glódís Edda Þuríðardóttir úr KFA á 56,30 sekúndum sem er bæting hjá henni.

Einum sentimetra frá EM lágmarki

Hafdís Sigurðardóttir var aðeins einum sentimetra frá því í gær að ná lágmarki inn á Evópumótið innanhúss í frjálsum íþróttum þegar hún stökk 6,49 metra. Á stórmóti ÍR fyrir tveimur vikum stökk Hafdís einnig 6,49 metra. Íslandsmet hennar er 6,54 metrar og er hún því alveg við sinn besta árangur. Um næstu helgi keppir Hafdís á Norðurlandamótinu og fær hún því annað tækifæri til þess að á lágmarkinu á EM sem fer fram 1.-3. mars í Glasgow. Hafdís sigraði langstökkið, í öðru sæti varð Josephine Oliaryk frá Bretlandi sem stökk 6,11 metra og í þriðja sæti varð María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH með stökk upp á 5,77 metra.

Hraðasta 1500 metra hlaup Íslendings með rafrænni klukku

Hlynur Andrésson í 1500m á RIG 2019

Hlynur Andrésson úr ÍR sigraði í 1500 metra hlaupi á tímanum 3:45,97 mínútum. Það var persónulegt met hjá Hlyni og aðeins rétt frá Íslandsmeti Jóns Diðrikssonar frá árinu 1980 sem er 3:45,6 mínútur. Það met var mælt með handtímatöku og er því tími Hlyns sá besti með rafrænni klukku. Nick Jensen frá Danmörku kom hinsvegar fyrstur í mark og var sá tími undir lágmarkinu á EM en hann var því miður dæmdur úr leik fyrir að stíga á línu.

Aníta þriðja gegn sterkum keppendum

Aníta Hinriksdóttir hlaut bronsverðlaun í 800 metra hlaupinu en hlaupið sigraði silfurverðlaunahafinn frá EM innanhúss 2017, Shelayna Oskan-Clarke frá Bretlandi. Sigurtími hennar var 2:04,20 mínútur en Íslandsmet Anítu er 2:01,18. Diana Mezulianikova frá Tékklandi varð önnur á 2:04,42 og Aníta hljóp á 2:04,88.

Tvö Íslandsmet í boðhlaupi

Boðhlaupssveit Íslands á RIG 2019

Í haust var settur saman íslenskur boðhlaupshópur sem æft hefur markvisst saman í vetur og hefur það skilað sér því bæði karla- og kvennasveitin settu nýtt Íslandsmet í 4×200 metra boðhlaupi. Karlasveitin samanstóð af Ara Braga Kárasyni, Hinriki Snæ Steinssyni, Kormáki Ara Hafliðasyni og Ívari Kristni Jasonarsyni. Tími þeirra var 1:27,13 og komu þeir í mark aðeins um hálfri sekúndu frá Bandarísku sveitinni sem sigraði. Kvennasveit Íslands sigraði hins vegar bandarísku sveitina og tími þeirra var 1:37,72  sem er einnig nýtt Íslandsmet. Í íslensku sveitinni voru Glódís Edda Þuríðardóttir, Melkorka Rán Hafliðadóttir, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir.

Hér má sjá myndir frá mótinu og öll úrslit má sjá hér.