Tvö gull á seinni degi NM U20

Norðurlandameistaramót 19 ára og yngri sem fram fór í Kristiansand í Noregi lauk í gær. Ísland og Danmörk skipuðu sameiginlegt lið gegn Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Í stigakeppninni sigraði Noregur í kvennaflokki og Finnland í karlaflokki. Lið Danmerkur og Íslands varð í fjórða sæti í báðum flokkum.

Á þessum seinni degi hlaut íslenska liðið tvö gullverðlaun og tvö silfurverðlaun. Í heildina voru verðlaun íslenska liðsins því tíu, þrjú gull, sex silfur og eitt brons. Einnig féll eitt mótsmet og tvö aldursflokkamet.

Erna Sóley Gunnarsdóttir varð Norðurlandameistari U20 í kúluvarpi. Hún kastaði lengst 15,85 metra sem er einnig nýtt mótsmet. Hún sigraði með miklu yfirburðum en sú sem varð önnur kastaði einum og hálfum metra styttra. Erna fékk brons á EM U20 fyrr í sumar og er hún því rækilega að stimpla sig inn á alþjóðlegum vettvangi.

Íslensku stelpurnar urðu einnig Norðurlandameistarar U20 í 4×400 metra boðhlaupi. Sveitina skipuðu Katla Rut Robertsdóttir Kluvers, Þórdís Eva Steinsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Tími þeirra var 3:44,99 mínútur sem er stúlknamet 18-19 og 20-22 ára.

Silfurverðlaun hlutu Valdimar Hjalti Erlendsson og Eva María Baldursdóttir. Valdimar Hjalti keppti í kringlukasti þar sem hann kastaði 57,59 metra, tæpum metra styttra en Norðmaðurinn sem sigraði. Valdimar er einn efnilegasti kringlukastari Evrópu en hann komst í úrslit á EM U20 fyrr í sumar. Eva María keppti í hástökki þar sem hún stökk yfir 1,76 metra sem er nýtt persónulegt met. Sigurstökkið kom frá Finnlandi og var 1,79 metrar.

Í þrístökki varð Agla María Kristjánsdóttir í fimmta sæti. Hún stökk lengst 12,24 metra. Ingibjörg Sigurðardóttir sem var hluti af íslensku boðhlaupssveitinni keppti einnig í 400 metra grindarhlaupi. Hún kom í mark á 63,83 sekúndum og varð í sjöunda sæti. Hildur Helga Einarsdóttir varð einnig sjöunda í spjótkasti þegar hún kastaði 37,19 metra. Hildur keppir í flokki 16-17 ára með 500 gramma spjót en keppti upp fyrir sig í gær með 600 gramma spjót í flokki 18-19 ára. Í 200 metra hlaupi keppti Þórdís Eva Steinsdóttir. Hún varð sjöunda á 25,28 sekúndum. Í kringlukasti keppti Ingvar Freyr Snorrason. Hann varð í áttunda sæti með 42,43 metra kast.

Hér má sjá myndir frá íslensku keppendunum á mótinu, hér eru öll úrslit mótsins og hér má sjá upptöku frá útsendingu mótsins.