Tveir íslenskir keppendur komnir í úrslit í 800 m á EM öldunga

Keppni á Evrópumeistaramóti öldunga, sem fram fer í Árósum, Danmörku, hélt áfram í gær.

Tveir íslenskir keppendur kepptu í gær en það voru þau Fríða Rún Þórðardóttir ÍR og Ólafur Austmann Þorbjörnsson Breiðabliki sem kepptu í undanúrslitum í 800 m hlaupi.

Fimmtudagurinn 3. ágúst

Dagurinn byrjaði með rigningu og roki, ekta íslenskum aðstæðum. Síðan stytti verulega upp og þegar 800m hlaup Íslendinganna tveggja fóru fram var sól og logn. Fríða Rún Þórðardóttir ÍR var í seinni riðlinum, 17 keppendur mættir af þeim 20 sem skráðir voru. Hún hljóp með fyrri grúppunni alla leið og þegar 200 m voru í mark pressaði hún upp hraðann og náði 4. sæti í mark. Það dugði inn í 12 manna úrslit, tíminn 2:32,29 mín besti utanhúss 800m tími síðan 2009.

Ólafur Austmann Þorbjörnsson Breiðbliki hljóp í forystu í seinni riðlinum af miklu hugrekki og eldmóði og var mjög ákveðinn í að komast áfram. Ólafur endaði í 5. sæti í sínum riðli á tímanum 2:03,68 mín, sem er bæting hjá honum. Hann varð 10. af 18 keppendum í heildina og komst áfram í úrslit. Úrslit í 800 m hlaupum fara fram á laugardaginn.

Í dag, 4. ágúst er aðeins einn að keppa frá Íslandi. Það er Jón Bjarni Bragason Breiðabliki sem keppir í kastþraut sem samanstendur af 5 kastgreinum, lóðkasti, sleggjukasti, kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti, og stendur keppni yfir frá 8:30 um morguninn til rúmlega 15.

Á laugardaginn keppir Helgi Hólm ÍR í hástökki karla (75-59 ára).

Á sunnudaginn keppa fjórir íslenskir keppendur: Kristófer Sæland Jónasson HSH í kastþraut (80-84 ára), Jón H. Magnússon ÍR í kastþraut (80-84 ára), Þórólfur Ingi Þórsson ÍR í hálfu maraþoni (40-44 ára) og Helgi Hólm ÍR í kastþraut (75-79 ára).

ÁFRAM ÍSLAND!