Tveir Íslendingar yfir 60 metra

Guðni Valur nálgast Ólympíulágmarkið í kringlukasti og lengir hann sig með hverju móti. Í dag keppti hann á kastmóti í Växjö, í Svíþjóð og kastaði lengst 65,39 metra sem er ársbesta hjá honum og aðeins 61 sentímetra frá Ólympíulágmarkinu. Guðni endaði í þriðja sæti á mótinu en það voru Svíarnir Simon Petterson og Daniel Ståhl sem tóku fyrsta og annað sætið. Simon kastaði 69,48 metra og Daniel 69,11 metra.

Mér fannst ég nú ekkert vera kasta neitt rosalega vel þótt að vegalengdin sé góð. Aðstæður voru bara góðar, fín gola frá hægri og 20 gráður! Þetta er bara allt að smella hægt og rólega hægt að laga hitt og þetta tæknilega en þetta er allt að ganga í rétta átt.

Guðni Valur

Næst á dagskrá hjá Guðna er Göteborg GP þann 2. júní.

Sumarkastmót ÍR var haldið í storminum í Laugardalnum í gær. FH-ingurinn Mímir Sigurðsson er búinn að vera í stórkostlegu formi og sýndi það og sannaði í gær þegar hann kastaði kringlunni 60,32 metra. Hann átti áður 55,54 metra og því risa bæting hjá honum. Þetta er sjöunda lengst kast í kringlukasti karla frá upphafi samkvæmt Afrekaskrá FRÍ. Mímir kastaði aftur í dag og kastaði hann lengst 58,41 metra.