Tveir Íslendingar á toppnum í NCAA í fyrsta skiptið í sögunni

Fimm Íslendingar kepptu á svæðismótum í Bandaríkjunum um helgina og unnu til ferna verðlauna. Guðni Valur sigraði kringlukast keppni í Zagreb, Króatíu.

Það voru Íslendingar sem tóku fyrsta og annað sæti í spjótkastkeppninni á svæðismóti SEC (Southeastern Conference) á fimmtudag en það voru þeir Dagbjartur Daði Jónsson og Sindri Hrafn Guðmundsson. Dagbjartur leiddi alla keppnina og sigraði á nýju persónulegu meti og vallarmeti. Hann kastaði 78,66 metra en hann átti áður 78,30 metra. Sindri kastaði 77,42 metra en hann er búinn að kasta lengst 77,77 metra í ár. Þeir æfa báðir hjá Mississippi State University og eru nú með tvö lengstu köstin í spjótkasti í allri NCAA en það er í fyrsta skiptið í sögunni sem það gerist.

Ég fílaði mig bara mjög vel, ógeðslega gaman að vera farinn að keppa á svona stórum og sterkum mótum aftur. Ég og Sindri erum núna númer eitt og tvö í NCAA sem lofar góðu fyrir Nationals eftir rúmar 3 vikur!

Dagbjartur Daði

Erna Sóley Gunnarsdóttir keppti í kvöld á svæðismeistaramóti C-USA (Conference USA) fyrir skólann sinn Rice University og bætti eigið Íslandsmet um fimm sentímetra og kastaði 16,77 metra. Það skilaði henni öðru sæti en það var Maia Campbell frá University of Texas at San Antonio sem sigraði með 17,33 metra.

Vigdís Jónsdóttir keppti í sleggjukasti á svæðismóti AAC (American Atheltic Conference) á föstudag. Hún kastaði lengst 62,06 metra sem skilaði henni þriðja sætinu. Vigdís á lengst 63,44 metra sem er næst lengsta kast frá upphafi í sleggjukasti kvenna. Það var Taylor Scaife frá University of Huston sem sigraði keppnina með 64,79 metra. Vigdís keppir fyrir University of Memphis.

Thelma Lind Kristjánsdóttir sem keppir University of Virginia, keppti í kringlukasti á svæðismóti ACC (Atlantic Coast Conferrence) á fimmtudag. Hún kastaði lengst 53,62 metra sem er annað lengsta kast hennar á ferlinum. Þessi árangur skilaði henni fimmta sætinu á mótinu. Íslandsmet hennar í greininni er 54,69 metrar. Það var Schanice Love frá Florida State University sem sigraði keppnina með kast upp á 60,59 metra.

Guðni Valur Guðnason er á ferðalagi um Evrópu til að reyna að ná Ólympíulágmarki. Hann keppti í Zagreb í Króatíu um helgina á Dinamo international meeting Zagreb og kastaði kringlunni 62,25 metra. Sá árangur dugði til sigurs en hann kastaði 63,66 metra í Split um síðustu helgi. Lágmarkið á leikana er 66 metrar og er hann á leið til Svíþjóðar þar sem hann mun keppa næstu helgi.