Tíu mótsmet á fyrri degi MÍ 15-22 ára

Veðrið lék svo sannarlega við keppendur og áhorfendur á fyrri degi MÍ 15-22 ára í Laugardalnum í dag. Aðstæður til bætinga voru góðar og margir sem nýttu sér það. Tíu mótsmet féllu og fjölmargir bættu sín persónulegu met.

Ragúel Pino Alexandersson, UFA, sigraði þrístökk pilta 16-17 ára á nýju mótsmeti þegar hann stökk 13,41 metra. Einnig féll mótsmetið í þrístökki pilta 18-19 ára. Það var hann Bjarki Rúnar Kristinsson, Breiðabliki, sem gerði það þegar hann stökk 13,80 metra.

Eva María Baldursdóttir, HSK/Selfoss, sigraði í hástökki stúlkna 15 ára á nýju mótsmeti þegar hún stökk 1,66 metra.

Í 100 metra hlaupi stúkna 16-17 ára sigraði Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðabliki, þegar hún hljóp á 12,30 sekúndum (+2,0 m/s). Það var bæði nýtt persónulegt met hjá Birnu sem og nýtt mótsmet. Birna Kristín var aftur á ferðinni í hástökki þegar hún sigraði á nýju mótsmeti, 1,69 metrar. Birna sigraði einnig í þrístökki með stökk upp á 11,70 metra (-1,9 m/s). Enn og aftur á nýju mótsmeti, því þriðja í dag.

Tiana Ósk Whitworth, ÍR, sigraði í 100 metra hlaupi stúlkna 18-19 ára þegar hún hljóp á 11,78 sekúndum. Það hefði dugað til að setja nýtt mótsmet en þar sem meðvindur var yfir leyfilegum mörkum, 2,1 m/s, þá fær hún það ekki skráð.

Sveit ÍR í flokki stúlkna 18-19 ára setti nýtt mótsmet í 4×100 metra boðhlaupi á tímanum 49,30 sekúndum.

Í hástökki stúlkna 18-19 ára sigraði Helga Þóra Sigurjónsdóttir og sett um leið nýtt mótsmet þegar hún stökk 1,74 metra. Það var einnig persónuleg bæting hjá Helgu. Í sama aldursflokki sigraði Hildigunnur Þórarinsdóttir, ÍR, í þrístökki og setti nýtt mótsmet. Hennar lengsta stökk var 11,66 metrar (+1,9 m/s).

Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki, setti nýtt mótsmet í kúluvarpi stúlkna 20-22 ára þegar hún varpaði kúlunni 12,30 metra. Glæsilegt hjá Irmu sem keppir í níu greinum um helgina.

Hér má finna öll úrslit mótsins

Myndir af mótinu eru væntanlegar inn á Flickr síður Frjálsíþróttasambandsins