Tímabundið lokað fyrir lágmörk

World Athletics, Alþjóðafrjálsíþrótta­sam­bandið, hefur gefið út að lokað hafi verið tímabundið fyrir tímabilið til þess að ná lágmarki inn á Ólympíuleikana. Þessi lokun varir frá 6. apríl til 30. nóvember 2020. Á þessu tímabili verður hvorki hægt að ná lágmörkum né gilda árangrar fyrir heimslistann. Tímabilið mun opna aftur 1. desember á þessu ári og verða opið til 29. júní 2021.

Fyrir flestar greinar hafði tímabilið verið opið frá 1. maí 2019 til 5. apríl 2020 og þeir sem náðu lágmörkum og voru búin að tryggja sig inn á Ólympíuleikana á þeim tíma halda sæti sínu. Tímabilið fyrir langhlaup er aðeins öðruvísi en nánari upplýsingar um það má sjá neðst í fréttinni.

Eins og áður hefur komið fram þá áttu Ólympíuleikarnir að fara fram í Tókýó í lok júlí og byrjun ágúst á þessu ári. Þeim var frestað vegna heimsfaraldurs COVID-19 og fara því fram á sama stað ári seinna, 23. júlí til 8. ágúst 2021 í Tókýó, Japan.

Hér má lesa heildar yfirlýsingu frá World Athletics.