Tilkynning frá langhlaupanefnd

Vinsældir utanvegahlaupa fara ört vaxandi og margir hlauparar eru að stíga sín fyrstu spor á stígum og slóðum í náttúrunni. Þetta á einnig við um hlaupahaldara sem eru jafnvel að skipuleggja hlaup og viðburði í fyrsta sinn. Það mikilvægasta í skipulagningu á hlaupi er öryggi hlaupara, hvort sem það varðar hlaupaleið, merkingar eða uppsetningu viðbragðsaðila. Öryggi hlaupara er einnig tryggt með skyldubúnaði sem hlauparar þurfa að bera með sér. 

Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) er aðili að ITRA, alþjóðasamtökum utanvegahlaupara. Á heimasíðu ITRA má finna ítarlegar öryggisleiðbeiningar varðandi utanvegahlaup. FRÍ vill jafnframt vekja athygli hlaupahaldara á því að innan Langhlaupanefndar eru reynslumiklir aðilar sem eru tilbúnir að aðstoða hlaupahaldara varðandi mat á skyldubúnaði í utanvegahlaupum til að tryggja að öryggi hlaupara sé eins og best verður á kosið. Hægt er að senda inn fyrirspurn á: langhlaupanefnd@fri.is