Þrjú met féllu á 1. Jólamóti ÍR í gær – 150 met bætt á árinu

Sveinn Elías Elíasson Fjölni byrjar innanhússtímabilið af miklum krafti, en hann hljóp 60m hlaup á 6.92 sek. í gær og bætti sinn besta árangur í greininni um 5/100 úr sek. og eigin met í tveimur aldursflokkum þ.e. drengjaflokki (17-18 ára) og einnig í unglingaflokki (19-20 ára), en metið hans var 6.97 sek. frá árinu 2006 í báðum þessum aldursflokkum. Þessi árangur Sveins er 6/100 úr sek. frá ungkarlametinu (21-22 ára) og 12/100 úr sek. frá metinu í karlaflokki, en það er Einar Þór Einarsson Ármanni sem á metin í þessum flokkum (6.86s og 6.80s).
 
Þá bætti Stefán Árni Hafsteinsson ÍR sveinametið í stangarstökki á mótinu í gær, en hann stökk yfir 3.85 metra og bætti met Bjarka Gíslasonar UFA um 4 sm, en það var 3.81 metrar frá sl. ári.
 
Snorri Sigurðsson ÍR var innan við 1 sek. frá sveinameti í 3000m hlaupi, en hann hljóp á 9:27,97 mín.
 
Úrslit mótsins eru ekki enn komin inn í mótaforritið, en þau ættu að birtast þar innan tíðar. 50 keppendur tóku þátt í mótinu í gær.
Þar með hafa 150 met verið bætt á þessu ári og er það jöfnum á fjölda bættra Íslandsmeta á einu ári og stefnir því allt í að það met falli fyrir lok ársins, því ennþá eru nokkur mót á dagskrá á næstu dögum.
 

FRÍ Author